Rannsókn lögreglunnar á Vestfjörðum á ásökunum þess efnis að erlendur starfsmaður fiskvinnslufyrirtækis hefði krafið samlanda sína, sem koma þangað til vinnu, um háa peningauppæð í stendur enn yfir. Rannsókn lögreglu beinist að því hvort um saknæman verknað hafi verið um að ræða.
Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum, segir í samtali við mbl.is að rannsóknin standi enn yfir og að allir hlutir séu skoðaðir.
„Þetta gengur bara ágætlega,“ segir Hlynur og bætir við aðspurður að það sé ótímabært að segja nokkuð um það að svo stöddu um það hvenær niðurstaða liggi fyrir.
„Það er með þessa rannsókn sem og aðrar rannsóknir, þá snúast þær um það hvort hugsanlegur saknæmur verknaður hafi verið framinn og ef að það reynist, þá hver liggi undir grun og svo framvegis,“ segir Hlynur.
Aðspurður segist hann ekki geta tjáð sig frekar um gang mála, t.d. hvort rannsóknin sé komin langt og hvort hún sé umfangsmikil.
Upphaf málsins má rekja til bréfs sem pólskir starfsmenn fiskvinnslufyrirtækis á Bolungarvík sendu í síðasta mánuði til vestfirska fréttavefjarins Bæjarins Besta, sem greindi fyrst frá málinu, og lögreglunni á Vestfjörðum. Starfsmennirnir saka samlanda sinn, sem er sagður starfa sem verkstjóri hjá fyrirtækinu, um innheima 1.000 evrur af öllum Pólverjum sem fá vinnu hjá fyrirtækinu.
Þann 25. október sendi lögreglan á Vestfjörðum frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að hún hefði hafið formlega rannsókn vegna ábendingarinnar, þ.e.a.s. hvort hún ætti við rök að styðjast og hvort um saknæman verknað væri að ræða.