Telur skilmála Kredia brjóta gegn lögum

mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Guðbjörg Eva Baldursdóttir, lögfræðingur og varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, telur að skilmálar smálánafyrirtækisins Kredia brjóti gegn lögum um neytendalán. Hún ætlar að láta reyna á lánastarfsemi fyrirtækisins og fara alla leið fyrir dóm ef þess þarf.

Þann 1. nóvember síðastliðinn tóku ný lög um neytendalán gildi. Nú teljast fleiri lán til neytendalána, þar á meðal smálán, og falla þar af leiðandi undir lögin. Í samtali við mbl.is segir Guðbjörg Eva að í nýju lögunum sé hámark sett á árlega hlutfallstölu kostnaðar. Árleg hlutfallstala kostnaðar mælir heildarkostnað við það að taka lán, það er bæði vexti og annan kostnað, svo sem lántökugjald og fleira. Guðbjörg telur að sú flýtiþjónusta, sem Kredia býður upp á, falli undir lögin og því sé greiðslan, sem greiða þarf fyrir þá þjónustu, ekki lögum samkvæmt.

Ætlar ekki að greiða flýtigjaldið

„Ég tók smálán þann 1. nóvember, þegar lögin tóku gildi, með þessari flýtiþjónustu. Þegar gjalddaginn kemur, 1. desember, þá ætla ég að greiða þá fjárhæð sem ég fékk lánaða og það sem ég tel að þeim sé lögum samkvæmt heimilt að rukka mig um, þ.e. árlega hlutfallstölu kostnaðar. Ég ætla hins vegar að hafna því að greiða flýtigjaldið á þeim forsendum að það standist ekki lög,“ segir Guðbjörg Eva. „Ég tel gjaldið fyrir flýtiþjónustuna vera ekkert annað en hluta af heildarkostnaði við lántöku.“

Hún segir að gjaldið brjóti í bága við nýju lögin um neytendalán og sé jafnvel brot á lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

Vekur menn til umhugsunar

„Ég bíð spennt. Ég borga mitt lán þann 1. desember og svo mun ég skrifa þeim bréf þar sem ég mun rökstyðja lögfræðilega hvað ég tel að sé ábótavant. Ef þeir halda áfram að innheimta mig mun ég mótmæla því á þeim grunni. Svo er bara að bíða og sjá hvort þeir fari alla leið. Jafnvel fyrir dóm,“ segir hún.

„Ég tel þetta vera andstætt lögum og ákvað að grípa til þessa ráð til að vekja menn til umhugsunar um stöðu neytenda á lánamarkaði.“

Guðbjörg Eva vill vekja fólk til umhugsunar um stöðu neytenda …
Guðbjörg Eva vill vekja fólk til umhugsunar um stöðu neytenda á lánamarkaði.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert