Bjarki Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána Kaupþings, segist telja að handvömm starfsmanna bankans skýri hvers vegna lánveiting til Q Iceland Finance var lögð fyrir lánanefnd stjórnar en lán til félagsins Gerlands, sem var í eigu Ólafs Ólafssonar, var ekki lagt undir nefndina.
Þetta kom fram í yfirheyrslu yfir Bjarka í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Bjarki sagði að frá fundi lánanefndar stjórnar, sem var haldinn í London, þar sem lán vegna kaupa Al Thani var afgreitt. Þá hafði verið tilkynnt um kaup Al Thani á 5% hlut í Kaupþingi í Kauphöll Íslands.
Bjarki var spurður hvernig staðið hefði verið að lánveitingum til Gerlands. Bjarki sagði að Halldór Lúðvígsson, viðskiptastjóri á lánasviði Kaupþings, hefði verið falið um að útbúa skjöl vegna lána til Gerlands. Að öllu jöfnu hefði það verið verkefni Guðmundar Þórs Gunnarssonar, viðskiptastjóra á útlánasviði Kaupþings, að ganga frá viðskiptunum. Hann hefði verið viðskiptastjóri yfir þeim félögum sem Ólafur átti. Það hefði hins vegar verið mjög mikið að gera hjá Guðmundi á þessum tíma, en lítið að gera hjá Halldóri. Bjarki sagðist telja að Guðmundur og Halldór hefðu talið að hinn myndi leggja lánveitinguna undir lánanefnd. Það hefði verið handvömm að lánið hefði ekki verið lagt fyrir lánanefnd.
Bjarki sagði fráleitt að það hefði verið ætlunin að leyna lánveitingunni til Gerlands. Lánið hefði verið skráð í bækur bankans og ekki hægt að leyna láninu. „Það gengur ekki upp að leyna láni upp á 12,5 milljarð. Það gengur alls ekki upp í bankastarfsemi að leyna slíku láni.“
Bjarki sagðist ekki vita um neitt dæmi um að upplýsingum hefði verið haldið frá lánanefndinni.
Bjarki tók fram að hann hefði ekki vitað um lánveitingu til Ólafs vegna viðskiptanna fyrr en eftir hrun bankans. Hann sagði að hann hefði setið í mjög stuttan tíma á fundi þar sem Hreiðar Más Sigurðsson gaf fyrirmæli um hvernig standa ætti að lánveitingunni og ekki haft yfirsýn yfir málið.
Stjórnendur Kaupþings hafa við skýrslutöku í héraðsdómi sagt að kaup Al Thani á hlut í Kaupþingi í september 2008 hafi styrkt stöðu bankans og staða hans væri 3,5 milljörðum betri en ef þessi viðskipti hefðu aldrei átt sér stað. Þeir hafa viðurkennt að Kaupþing hafi lánað allt kaupverðið, en það kom ekki fram í tilkynningu sem send var Kauphöllinni á sínum tíma. Ekki var þar heldur getið um aðild Ólafs Ólafssonar að viðskiptunum. Stjórnendur bankans segja að þessar upplýsingar hafi ekki þurft að koma fram í tilkynningunni.