Íslenska ríkið féllst í gær á að að greiða Snorra Páli Jónssyni 300 þúsund krónur í skaðabætur vegna handtöku sem fór fram 21. maí árið 2009.
Snorri Páll höfðaði upphaflega skaðabótamál á hendur ríkisinu vegna tveggja handtaka, en sú fyrri fór fram 8. desember 2008. Hann er einn níumenninganna sem sýknaðir voru af árás á Alþingi en fyrri handtakan var vegna hinnar meintu árásar.
Seinni handtakan var gerð vegna þess að Snorri Páll var sagður hafa hrækt á lögreglubíl og var hann ákærður fyrir að hafa hrækt á vinstri kjálka lögreglumanns í lögreglubifreið á leið á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Var Snorri Páll sýknaður í málinu.
Snorri Páll fór fram á að íslenska ríkið greiddi honum fimm milljónir íslenskra króna vegna handtakanna en við fyrirtöku málsins í gær var lögð fram sátt í málinu. Með sáttinni féll Snorri Páll frá öllum kröfum vegna handtökunnar 8. desember 2008, en ríkið féllst á að greiða honum bætur vegna handtökunnar 21. maí 2009.