Nokkuð hátt hlutfall nemenda í 5.-7. bekk segist eiga erfitt með að sofa eða sofna, hefur litla matarlyst og hefur stundum eða oft fundið fyrir höfuð- og magaverk. „Þetta eru ansi háar tölur miðað við hvað ungir krakkar eiga í hlut,“ sagði Hrefna Pálsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum & greiningum, á kynningarfundi í Nauthóli í dag.
Á fundinum var gerð grein fyrir niðurstöðum æskulýðsrannsóknarinnar Ungt fólk 2013. Könnunin var lögð fyrir nemendur í 5., 6., og 7. bekk í öllum grunnskólum landsins í febrúar á þessu ári. Rannsóknarmiðstöðin Rannsóknir & greining framkvæmdi rannsóknina í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Hrefna sagði þó að dregið hefði úr vanlíðan barna, sér í lagi borið saman við árið 2011. Hins vegar væri staðreyndin sú að 22-23% nemenda í 5. bekk sögðust hafa átt erfitt með að sofna eða sofa sjö daga fyrir könnunina. Þá sögðust 22% stelpna stundum eða oft þjást af höfuðverk.
Fram kemur í niðurstöðunum að langsamlega flestir telji sig eiga marga eða mjög marga vini. Hrefna vakti hins vegar athygli á því að þónokkur fjöldi einstaklinga í öllum árgöngum telji sig eiga fáa eða enga vini. Um er að ræða 151 strák og 130 stelpur í 5. bekk, 125 stráka og 135 stelpur í 6. bekk og 121 strák og 141 stelpa í 7. bekk. Benti hún á að þrátt fyrir að prósentutölurnar væru heldur lágar, 6-9%, þá væri fjöldinn samt sem áður mikill.
Hún sagði jafnframt að 15% þeirra nemenda sem aldrei æfðu íþróttir með íþróttafélagi væru líklegri til að segjast hafa stundum eða oft upplifað einmanaleika.
Þá kom í ljós að þeir nemendur, sem sögðust hafa stundum eða oft fundið fyrir einmanaleika, væru hlutfallslega líklegri til að segja að þeir ættu enga eða fáa vini.