Krafist að nöfn mannanna verði fjarlægð

Útlit er fyrir að málin fari fyrir dómstóla.
Útlit er fyrir að málin fari fyrir dómstóla. mbl.is/Kristinn

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa borist kærur þar sem farið er fram á að forsvarsmenn tveggja vefsvæða, sem nafngreina og birta ljósmyndir af barnaníðingum, fjarlægi bæði nöfn og myndir af þremur mönnum. 

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður mannanna, segir í samtali við mbl.is að hann sé búinn að senda þrjár kærur til lögreglu vegna málanna. Forsvarsmönnum vefsvæðanna gefist nú kostur á að ljúka málunum með því að fjarlægja færslurnar og þá verða kærurnar afturkallaðar. Þessu hafna forsvarsmenn vefsvæðanna.

Að sögn Vilhjálms telja mennirnir að það hafi verið brotið á sér með þessum mynd- og nafnbirtingum. 

Mynd- og nafnbirtingar ærumeiðandi

„Ég tel að það sé alveg klárt að í þessu felist ærumeiðingar, eftir atvikum ærumeiðandi aðdróttanir, með myndbirtingunni og nafnbirtingunni undir þessum titli [Barnaníðingar myndbirtir og nafngreindir]. Eftir atvikum ærumeiðingar, en það er nú eitthvað mismunandi eftir mönnum, en til vara þá feli þetta í sér brigsl,“ segir Vilhjálmur og bætir við að loks telji hann að þetta sé brot á friðhelgi einkalífs sinna skjólstæðinga.

Hann segir að gamlir refsidómar sem menn hafa hlotið varði almenning engu á þessari stundu. Menn hafi hlotið sína dóma og séu að taka út sína refsingu. 

Loks tekur hann fram að í tveimur tilvikum sé um að ræða mál sem séu í áfrýjun fyrir Hæstarétti og þar af leiðandi liggi ekki fyrir endanlegur dómur í máli mannanna.

Þá segir Vilhjálmur að tvær kærur til viðbótar verði að öllum líkindum sendar til lögreglu á næstunni vegna tveggja manna sem séu einnig nafngreindir á umræddum vefsvæðum.

Reiðubúin að láta reyna á málið fyrir dómstólum

Forsvarsmenn vefsvæðanna greina frá því að þeir hafi fengið sent erindi frá Vilhjálmi vegna málsins, en þar er að vísu aðeins tekið fram að kæran snúist um einn einstakling.

Í yfirlýsingu sem er birt á síðunni segja forsvarsmennirnir, að þeir telji að birtingin hafi verið réttlætanleg í ljósi í hvaða stöðu maðurinn var gagnvart sínu fórnarlambi. Þeir sjá ekki tilefni til þess að verða við beiðninni „og erum tilbúin að láta reyna á málið fyrir dómstólum ef svo ber undir. Það má geta þess að eftir að lögmanninum var svarað sendi hann aftur skilaboð þess efnis að hann félli frá kæru ef færslan yrði fjarlægð. Því boði var hafnað. Við látum ekki hótanir hafa áhrif á okkur nú frekar en áður og höldum áfram okkar striki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert