Sérfræðingahópur sem vinnur að því að útfæra leiðir til að ná fram lækkun lána mun skila niðurstöðum í lok þessa mánaðar, eins og til stóð, og í forsætisráðuneyti er að hefjast vinna við frumvarp um leiðir til leiðréttinga. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag, en tilgreindi ekki frekar hverjar þær leiðir verða.
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar sagði að enn væri beðið eftir efndum á stærsta kosningaloforði Íslandssögunnar en það eina sem ríkisstjórnin bjóði upp á sé nefndir og fleiri nefndir.
„Fátt bendir til þess eftir ræðu forsætisráðherra að það verð nokkuð í hendi til umfjöllunar á Alþingi um skuldamál heimilanna hérna megin við áramót,“ sagði Árni Páll. „Hvort eitthvað kemur fyrir vorið fer að verða góð spurning.“
Þingmenn fjölmenntu þegar Sigmundur Davíð gaf munnlega skýrslu um stöðu boðaðra aðgerða vegna skuldavanda heimilanna. Hann sagði að framganga þingsályktunarinnar, sem samþykkt var í júní um aðgerðaráætlun í 10 liðum, sé með ágætum og á áætlun.
„Það er von mín að góð samstaða náist á Alþingi,“ sagði Sigmundur Davíð og bætti því við að íslensk heimili eigi það skilið. Í skýrslu hans kom fram að 2 liðum af 10 í aðgerðaráætluninni er lokið með samþykkt frumvarpa á Alþingi. Unnið er að hinum.
Í samræmi við 1. lið aðgerðaráætlunarinnar var í sumar settur á fót sérfræðingahópur sem á að útfæra mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og leggja fram tillögur fyrir nóvemberlok 2013.
Forsætisráðherra sagði að hópurinn hafi fengið til sín gesti úr ýmsum áttum og skipað fjóra undirhópa og rætt við utanaðkomandi sérfræðinga. Tillögur verði lagðar fram fyrir mánaðamót og í forsætisráðuneytinu sé nú að hefjast vinna við að semja frumvarp um leiðir til leiðréttingar.
Í skýrslu Sigmundar Davíðs kom einnig fram að skipaður hafi verið 32 manna hópur til að skoða framtíðarskipan húsnæðismála, samkvæmt 4. lið aðgerðaráætlunarinnar. Þá muni sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum skila tillögum um miðjan desember, í samræmi við 6. lið aðgerðaráætlunarinnar.
Í lok nóvember verður lagt fram frumvarp um það hvernig eignalausum einstaklingum verði gert kleift að greiða kostnað veggna gjaldþrotaskipta á búi sínu. Upphaflega stóð til að þær tillögur lægju fyrir í september sl.
Samkvæmt 8. lið áttu að liggja fyrir í ágúst sl. tillögur sérfræðingahóps um möguleika á því að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna tafa á endurútreikningi lána. Þetta er ekki framkvæmanlegt, samkvæmt niðurstöðu starfshóps um málið. Sigmundur Davíð sagði hinsvegar að m.v. svör viðskiptabankanna sé útlit fyrir að endurútreikningi verði lokið um áramótin.
Tveimur liðum aðgerðaráætlunarinnar er lokið. Annars vegar 5. lið, um lögfestingu flýtimeðferðar dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna. Frumvarp um þetta hefur verið samþykkt á Alþingi. 10. lið áætlunarinnar er einnig lokið, því Alþingi samþykkti í september frumvarp um að Hagstofa Íslands fái skýrar heimildir til að afla upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja.
Árni Páll Árnason steig í pontu á eftir forsætisráðherra og gagnrýndi skort á samstarfi um svo stórt mál. Hann sagði fróðlegt að sitja í þéttpökkuðum þingsal og bíða milli vonar og ótta hvort eitthvað komi frá forsætisráðherra um svo stórt mál, því efni skýrslunnar hafi ekki verið upplýst fyrir fram.
„Forsætisráðherra hefur ítrekað tala um að framundan sé heimsmet í vinnu við að lækka skuldir heimila og hann hefur ekki þreyst á því að kynda undir væntingum í þeim efnum,“ sagði Árni Páll. Efndirnar væru hinsvegar enn litlar.
Árni Páll rifjaði upp að í kosningabaráttunni í vor hafi Sigmundur Davíð ítrekað horft í augu kjósenda og sagt „þetta er hægt“. Þann 22. apríl hafi hann boðað að skuldir heimilanna myndu lækka „strax“ og áhrifin koma í ljós á komandi misserum.
„Þessi fyrirheit voru gefin en hafa enn ekki verið efnd og af hálfu forsætisráðherra ekki skýrt hvernig þau verða efnd [...] Víð bíðum enn eftir að sjá hvað raunverulega felst í þessum fyrirheitum og með hvaða hætti ríkisstjórnin hyggst efna þau.“
Hann benti á að Sigmundur Davíð hafi lofað því að kostnaðurinn af leiðréttingu skulda yrði borinn af erlendum kröfuhöfum. Í ræðunni í dag hafi hann hinsvegar boðað stofnun sjóðs sem þýði að ríkið beri ábyrgðina.
„Það var nákvæmlega ekki það sem forsætisráðherra lofaði.“