Strákum finnst leiðinlegra að lesa en stelpum

Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík, fjallaði um …
Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík, fjallaði um rannsóknina. mbl.is/Golli

Um fjórðungur stráka í 5. bekk les að jafnaði engar bækur nema skólabækur. Þá finnst 15% þeirra mjög eða frekar leiðinlegt að lesa. Raunin er önnur hjá stúlkunum en 8% þeirra finnst mjög eða frekar leiðinlegt að lesa. Þetta kemur fram í niðurstöðum æskulýðsrannsóknarinnar Ungt fók 2013 sem kynntar voru í dag. Könnunin var lögð fyrir nemendur í 5., 6., og 7. bekk í öllum grunnskólum landsins í febrúar á þessu ári.

Fram kemur í niðurstöðunum að um 25% stráka í 5. bekk og 18% stelpna svari því þannig til að þau noti að jafnaði enga klukkustund á dag til að lesa aðrar bækur en skólabækur. Hlutfallið er á svipuðu reiki þegar litið er til 6. og 7. bekkjar.

Þá segja um 11% nemenda í 5. bekk, 16% nemenda í 6. bekk og 23% nemenda í 7. bekk að þeim finnist frekar eða mjög leiðinlegt að lesa bækur. Kynjamunur er áberandi, að því er fram kom í máli Ingu Dóru Sigfúsdóttur, prófessors við Háskólann í Reykjavík. Virðist vera sem svo að strákum finnist leiðinlegra að lesa bækur en stelpum. Eins virðist slíkur leiði aukast eftir því sem þau verða eldri og á það við um bæði kynin.

Um 47% nemenda í 7. bekk nota hálfa til eina klukkustund á dag að jafnaði til að lesa texta á netinu, svo sem bækur, blöð og sögur, en um 17% stráka og 4% stelpna í sama árgangi nota að jafnaði tvær til þrjár klukkustundir á dag til að spila tölvuleiki.

Inga Dóra benti jafnframt á að veruleg tengsl væru á milli skjánotkunar og þunglyndis og að börn sem verji fjórum tímum eða meira fyrir framan skjá væru í mestri hættu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert