Kynntar hafa verið í ríkisstjórn hugmyndir um aðgerðir í Kolgrafafirði til að koma í veg fyrir síldardauða þar. Fjórar leiðir eru helst taldar koma til greina, en eftir er að útfæra þær allar.
Samkvæmt grófu mati er talið að kostnaður við að opna fjörðinn og gera nýja brú á vegfyllingu myndi kosta um 800 milljónir. Lokun fjarðarins er talin geta kostað 5-600 milljónir, en báðar þessar framkvæmdir tækju nokkurn tíma, að því er fram kemur í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Þriðja leiðin er um 1100 metra girðing utan brúar með veifum til að fæla síldina frá. Slík lausn er talin kosta 60-80 milljónir. Fjórða leiðin er að dæla súrefni í fjörðinn þegar vart verður við súrefnisskort.