Lögregluumdæmum á landsbyggðinni hefur verið gert að skera mikið niður undanfarin ár, meðal annars akstur lögreglubíla en hver ekinn kílómetri er kostnaðarsamur. Bitnar það helst á sýnileika lögreglunnar og umferðaröryggi.
Langt getur verið á milli starfsstöðva lögreglunnar á landsbyggðinni og því eru oft langir vegkaflar, m.a. á þjóðveginum, eftirlitslausir nánast alla daga ársins, að því er segir í fréttaskýring um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.
Hjá lögreglunni í Borgarfirði og Dölum hefur dregið mikið úr heildarmálafjölda síðan 2008. Árið 2008 voru málin sem komu til kasta lögreglu 5.243 en í fyrra voru þau 2.771. Mikið hefur dregið úr umferðarlagabrotum, þau hafa farið úr 1.110 árið 2008 niður í 507 árið 2012, árið áður voru þau aðeins 388. Þó dregið hafi úr umferðarlagabrotunum þýðir það ekki að ökumenn séu orðnir löghlýðnari. Þegar akstur lögreglubifreiða embættisins yfir sama tímabil er skoðaður sést að fækkun umferðarlagabrota helst í hendur við minni akstur lögreglunnar um umdæmið.