Segja flugið almenningssamgöngur

Í frétt á vef Bæjarins besta segir að þörf sé á að skilgreina innanlandsflugið sem almenningssamgöngur, og að það sé mikilvægur samgöngumáti vestfirðinga. Þetta er haft eftir Línu Björg Tryggvadóttur, verkefnisstjóra hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, um fund sem haldinn var á vegum sambandsins fyrir rúmri viku.

„Við höfum heyrt af upplifun íbúa af fluginu, og staðan var orðin sú að við vildum heyra raddir fólks úr opinbera geiranum og atvinnugeiranum,“ sagði Lína á bb.is

Á fundinum gerðu þeir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, og Arnór Magnússon, svæðisstjóri Isavia, grein fyrir málunum af sinni hálfu.

„Við spurðum tveggja spurninga, en þær voru ‚hversu mikil er þörfin í þínum starfsgeira að hafa stöðuga flugþjónustu á svæðið?‘ og ‚hvernig finnst þér vera komið til móts við þá þörf að flugþjónustuaðilum á svæðinu?‘. Við kölluðum til fulltrúa úr atvinnulífinu og frá hinu opinbera, og reyndum að taka eins breitt svið og við gátum.“ 

Meðal þess sem kom fram á fundinum er að vannýting Þingeyrarflugvallar helgast að hluta af aðstöðu, en enn hefur ekki verið gengið frá öllum þeim framkvæmdum sem þörf er á. Til þess fæst ekki fjárveiting. Þá lýstu fundargestir áhyggjum sínum af því að engin framtíðarsýn virtist vera í málefnum flugsins á Vestfjörðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert