Kári ósáttur við RÚV

Kári Stefánsson er ósáttur við hvernig Kastljós fjallaði um Íslenska …
Kári Stefánsson er ósáttur við hvernig Kastljós fjallaði um Íslenska erfðagreiningu í síðustu viku. Sverrir Vilhelmsson

Kári Stefánsson gagnrýnir vinnubrögð RÚV harkalega í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag undir fyrirsögninni RÚV - raunalega úrelt vinnubrögð. Tilefnið er Kastljósþáttur þar sem sjónum var beint að Kára Stefánssyni og Íslenskri erfðagreiningu. Í pistlinum segir Kári meðal annars:

„Þátturinn var byggður á  brotum úr nýlegu viðtali sem Helgi tók við mig og gömlum fréttaskotum úr samhengi og athugasemdum Helga. Sagan sem Helgi sagði í þættinum var annars vegar af svindlara, sem kom til Íslands árið 1996 og plataði íslensku þjóðina upp úr skónum og af henni stórfé og hins vegar af líftæknifyrirtæki sem aldrei gerði annað en að lofa og svíkja. Viðtalsbrotin við mig áttu greinilega að gefa það í skyn að ég hefði fengið tækifæri til þess að segja mína hlið á málum. Helgi ákvað hins vegar um hvað var spurt og spurði eingöngu um það sem um það sem miður fór og síðan órökstuddar aðdróttanir í minn garð og fyrirtækisins. Það blak sem ég reyndi að bera af mér og fyrirtækinu var svo gjarnan þurrkað út með athugasemdum Helga eða gömlum fréttaskotum sem mér var ekki boðið upp á að svara.“

Kári heldur svo áfram og telur upp nokkur dæmi um það sem betur hefði mátt fara að hans mati og endar svo pistilinn á þessum orðum: „Það er nefnilega þannig að RUV sem stofnun hefur myndað sér skoðun á ÍE og mér og lítur greinilega á það sem sitt hlutverk að ganga af okkur dauðum og grafa okkur utan garðs. Eina huggun mín í þessu máli er að orðglöggur maður og vís sem í lifanda lífi vann hjá stofnuninni í 25 ár tjáði mér, í gegnum miðil í þetta skiptið, að skamstöfunin RUV standi fyrir raunalega úrelt vinnubrögð.“ Lesa má grein Kára í heild sinni hér.

Helgi Seljan vísar gagnrýni Kára á bug og stendur við umfjöllunina. „Við óskuðum eftir viðtali við hann á þeirri forsendu að fjalla ætti um sögu Íslenskrar erfðagreiningar frá upphafi til þessa dags. Það gerðum við. Við vorum sanngjörn í umfjölluninni og fórum ekki rangt með staðreyndir. Kári gagnrýnir meðal annars það að hafa ekki fengið að stýra umfjölluninni og velja spurningarnar sjálfur en þannig vinnur Kastljós ekki og vonandi enginn annar fjölmiðill,“ segir Helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert