Ríkisstjórnin styrkir Hrókinn og Kalak

mbl.is/Hjörtur

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í gær að styðja Skákfélagið Hrókinn og Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, um tvær milljónir króna eða sem nemur einni milljón króna til hvors félags. Fram kemur í tilkynningu að félögin hafi í sameiningu unnið ómetanlegt starf í áranna rás til að treysta vináttu og samvinnu Íslands og Grænlands.

„Má þar nefna að Hrókurinn hefur skipulagt um 30 leiðangra til Grænlands á undanliðnum áratug og haldið þar fjölda viðburða og hátíða sem þúsundir Grænlendinga, ekki síst börn, hafa tekið þátt í og notið góðs af. Gefin hafa verið um tvö þúsund taflsett á austurströnd Grænlands og um þessar mundir er verið að afhenda 300 taflsett til barna í Nuuk. Þá hefur Hrókurinn aðstoðað við uppbyggingu skákfélaga, heimsótt leikskóla og athvörf fyrir börn og freistað þess að láta gott af sér leiða.“

Þá hafi Kalak sömuleiðis unnið að því að treysta vináttubönd þjóðanna árum saman. „Félagið hefur t.a.m. boðið börnum frá þorpunum á austurströndinni til skemmri tíma dvalar á Íslandi þar sem þau hafa lært að synda, ganga í skóla og kynnst íslenskum jafnöldrum sínum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert