„Lengi vel taldi ég að bókanir í ríkisstjórn hefðu litla þýðingu. Nú er ég kominn á aðra skoðun.“ Þetta segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi ráðherra, vegna skrifa Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns Vinstri grænna og fyrrverandi formanns flokksins.
Steingrímur gaf út bókina Frá Hruni og heim nýverið þar sem farið er yfir síðasta kjörtímabil. „Spyrja má hvort bókin hefði haft gott af því að vera skrifuð örlítið síðar en ljóst er af lestrinum að höfundi er niðri fyrir og liggur á að létta á sér. Það hefur sína kosti að menn tali hreint út. Að sumu leyti kemur þessi bók á óvart. Þannig hafði ég búist við því að hún gæfi stærri mynd af höfundi sínum en raun ber vitni,“ segir Ögmundur á vefsvæði sínu.
Ögmundur nefnir umfjöllun Steingríms um Icesave sérstaklega og gagnrýnir hana. „Það olli jafnan miklu írafári þegar óskað var eftir bókun í ríkisstjórn og var, sérstaklega af hálfu forsætisráðherrans, jafnan reynt að koma í veg fyrir að sérstaða væri bókuð. Lengi vel taldi ég að bókanir í ríkisstjórn hefðu litla þýðingu. Nú er ég kominn á aðra skoðun,“ segir Ögmundur
Hann nefnir að Steingrímur segist ekki minnast andstöðu Ögmundar við Icesave í bókinni, aðeins að hann hafi haft efasemdir. Þá segi í bókinni að Ögmundur hafi ekki lagst gegn málinu og ekki lýst andstöðu við inntakið, hvorki með bókunum í ríkisstjórn né öðrum hætti.
„Ekki trúi ég öðru en Steingrímur tali hér gegn betri vitund því varla hefur hann gleymt umræðum í ríkisstjórn og þá ekki síður á fundum okkar þriggja, mín, Jóhönnu Sigurðardóttur og hans sjálfs, þessa örlagaríku daga þegar skrifað var undir fyrsta Icesave-samninginn nánast óséðan og óræddan í ríkisstjórn og þingflokki, enda „einkaréttarlegt plagg“ sem trúnaður þyrfti að ríkja um. „Þú verður að treysta okkur,“ sagði forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann kinkaði kolli.
En án bókana hafa menn að sönnu frírra spil til að skrifa söguna á þann veg sem þeim þykir best hljóma.
Slík skrif fá þó ekki breytt þeirri staðreynd að ég var andvígur málsmeðferð Icesave-samningsins í ríkisstjórn og lagðist eindregið gegn honum í þingflokki VG í júní árið 2009. Og í septemberlok það ár sagði ég af mér ráðherraembætti vegna andstöðu minnar við málsmeðferð þessa samnings.“