Sigrún Stefánsdóttir ræðir um nýtt starf hjá Háskólanum á Akureyri, ákvörðunina um að segja upp á RÚV og rýran hlut kvenna í íslenskum fjölmiðlum. Hún er annar höfunda bókar sem fjallar um kvenráðherra Íslands og segir frá því verki sem væntanlegt er seint á næsta ári.
„Þegar fleiri en einn vilja sömu stöðu þá skapast yfirleitt einhver órói,“ segir Sigrún. „Í þessu tilfelli tók ferlið langan tíma og það skapaði ákveðna spennu. Ég hef hins vegar verið nokkuð róleg yfir þessu öllu saman.
Ég hef lengi haft augastað á Háskólanum á Akureyri og þykir mjög vænt um þá stofnun. Ég er mjög spennt fyrir starfinu og held að ég geti gert þar góða hluti. Mér finnst Háskólinn á Akureyri vera á tímamótum. Hann er búinn að sanna sig og þar er margt gott fólk en þar hefur orðið kynjaslagsíða. Það eru margar konur í námi í HA en mun færri karlmenn. Það er mjög neikvætt ef háskólinn hættir að vera aðlaðandi fyrir bæði kynin. Á þessu þarf að taka og gera háskólann meira aðlaðandi fyrir karlmenn en hann er í dag án þess þó að konur hætti að líta á skólann sem áhugaverðan kost.“
Hefurðu skýringar á því af hverju konur sækja meira í skólann en karlar?
„Þarna er stór kennaradeild og hefðin á Íslandi er sú að konur sækja meira í kennslu en karlar. Svo er þarna líka mjög vinsæl hjúkrunarbraut og fleiri námsgreinar sem hefð er fyrir að konur sæki meira í en karlar. Það þarf að skoða námsframboð og reyna að skapa leiðir sem laða karlmenn að skólanum í meira mæli en nú er. Annað mikilvægt verkefni er að fá fleiri nemendur í skólann, en mikil og hörð samkeppni er milli háskóla um góða nemendur. Í þriðja lagi þarf að gera rannsóknarstarfið hjá háskólanum sýnilegra. Það er kannski besta auglýsing sem skólinn getur fengið og um leið aðferð til að laða að fleiri vísindamenn og nemendur.“
Þú ert 66 ára gömul og ert að taka við nýju ábyrgðarstarfi. Finnst þér aldurinn ekki vera nein hindrun?
„Margar konur hafa nefnt þetta við mig og segjast vera ánægðar fyrir hönd kvenna að hægt sé fá starf á þessum tímapunkti í lífinu. Mér finnst afar mikilvægt að þeir sem eru á vinnumarkaði séu ekki allir á sama aldri. Í síðasta starfi hjá RÚV sagði ég að ég hefði ekki viljað taka við því deginum fyrr en ég gerði. Ég fékk það starf árið sem ég varð sextug. Öll sú reynsla sem maður hefur safnað í gegnum árin nýtist í vinnu. Það er svo mikilvægt nesti inn í ábyrgðarstörf að vera ekki fæddur í gær. Aftur á móti er það alveg augljóst að krefjandi starf krefst fullrar starfsorku, andlegrar orku og starfsgleði og ég er svo heppin að vera heilsuhraust og full af orku sem ég hlakka til þess að nýta í þágu Háskólans á Akureyri.“
Það vakti athygli þegar þú á síðasta ári sagðir upp starfi þínu sem dagskrárstjóri á RÚV. Finnst þér að það hafi verið rétt ákvörðun?
„Það var mjög sár ákvörðun vegna þess að á þessum tíma ætlaði ég ekki að hætta. Þetta kom mjög óvænt og bratt og mér fannst erfitt að hætta, en mér fannst ég þurfa að standa með sjálfri mér og það hef ég alltaf reynt að gera. Því miður varð ég að hætta. Þetta var starf sem ég hafði lagt allt í og var á fullu þegar allt var skyndilega búið og ég gekk út með dótið mitt í tveimur plastpokum.“
Af hverju?
„Upphaflega var ég ráðin á Rás 2 sem yfirmaður svæðisstöðva með skilyrtri búsetu á Akureyri og þangað fluttum við og keyptum okkur hús. Eftir eitt og hálft ár breyttist RÚV í ohf. og yfirmönnum var fækkað. Ég var kölluð suður og falið það verkefni að sjá um Rás 1 og Rás 2 og svæðisstöðvarnar fóru undir fréttastofuna þannig að mitt verksvið jókst og breyttist. Þessu verkefni sinnti ég til 2009 en þá urðu sviptingar í sambandi við dagskrárstjóra sjónvarps. Útvarpsstjóri Páll Magnússon kallaði mig á fund og spurði hvort ég vildi taka við dagskrárstjórn sjónvarpsins. Mér fannst það mjög spennandi og sagði strax já. Þá spurði hann hvort ég gæti ekki einnig verið dagskrárstjóri útvarps, alla vega til að byrja með. Þetta var gríðarstórt verkefni og kannski óðs manns æði að segja já við því. En ég gerði það. Síðar, í tengslum við erfiðar ákvarðanir varðandi niðurskurð, kallaði Páll mig á fund og sagði að hann ætlaði að skipta störfunum niður á ný og ég yrði þá aftur dagskrárstjóri á Rás eitt og Rás tvö en ekki lengur dagskrárstjóri sjónvarps. Mér fannst þetta hastarleg ákvörðun. Ég vildi halda áfram sem dagskrárstjóri sjónvarps og að einhver annar tæki við dagskrárstjórn Rásar eitt og tvö. Ég sagði honum að ef hann ætlaði að halda þessu til streitu þá væri líklegt að ég myndi hætta. Ég sendi Páli síðan bréf með nokkrum valkostum. Einn valkosturinn var sá að ég héldi áfram með sjónvarpið og að nýr dagskrárstjóri yrði ráðinn í útvarp, eða ég myndi fá ásættanlegan starfslokasamning og hætta. Hann spurði hvort ekki væri hægt að fá mig til að skipta um skoðun en ég vildi standa með sannfæringu minni. Svo ég hætti. Það var mjög erfitt, en mér fannst ég ekki eiga annarra kosta völ. Mér þykir vænt um RÚV og á þar fjölmarga vini sem ég er í góðu sambandi við og vona að í nýju starfi eigi ég eftir að verða áfram í góðu sambandi við allt það góða fólk sem vinnur hjá RÚV.“
Þú ert fjölmiðlafræðingur. Hvernig finnst þér fjölmiðlar almennt standa sig?
„Ef ég ætti að dæma frammistöðu þeirra út frá þeim skrifum sem hafa tengst mér og uppsögn minni á RÚV í fyrra og ráðningarferlinu sem snýr að Háskólanum á Akureyri þá hlýt ég að vera mjög svartsýn. Í svo að segja hverri einustu frétt sem var skrifuð um þessi mál hafa verið einhverjar staðreyndavillur. Ég held að það hafi ekki verið ein einasta frétt sem var rétt. Ég vona að þetta sé tilviljun.
Akillesarhællinn í fjölmiðlastétt er tímaleysi og álag og það að fólk fær ekki að fara ofan í saumana á einu né neinu. Þetta ásamt lágum launum gerir að verkum að fólk endist ekki í starfinu og leitar annað. Ég held að fjölmiðlafólk sé að reyna að gera það sem það getur við hrikalegar aðstæður.“
Ég veit að þú ert að vinna að bók um kvenráðherra Íslands. Segðu mér aðeins frá þeirri bók.
„Edda Jónsdóttir, sem ég vann um tíma með á RÚV, hringdi í mig í vetur og spurði hvort ég vildi ekki koma að því verkefni að skrifa sögu kvenráðherra Íslands. Nú er verkið komið vel á veg. Þetta er afar merkileg saga ólíkra en sterkra kvenna. Einn kvenráðherra er látinn, Auður Auðuns, og við gerum ráð fyrir að byggja kaflann um hana á frásögnum fólks sem þekkti hana. Hinir kaflarnir byggjast á viðtölum við kvenráðherrana. Ég þekki þessar konur mismikið en hver og ein þeirra hefur komið mér skemmtilega á óvart. Við Edda höfum skipt verkinu á milli okkar og þar sem hún er mun yngri en ég fjallar hún um yngri konurnar en ég fjalla um þær eldri. Það er gaman að setjast niður með þessum konum sem eru mjög opinskáar og hreinskilnar, bæði þegar kemur að þeirra persónulegu sögu og einnig því hvernig það var að berjast fyrir tilverurétti sínum í ríkisstjórn sem samanstóð aðallega af karlmönnum. Það er líka áhugavert hversu margar þessara kvenna voru ráðherrar í stuttan tíma og það er áhugavert hversu erfitt það var fyrir þær að missa embættið eftir stutta ráðherrasetu. Þetta er heillandi verkefni og við Edda leitumst við að vanda okkur eins og við getum. Ég geri ráð fyrir að bókin komi út um jólin 2014.“
Hefurðu áhuga á kvennasögu?
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á konum og alltaf barist fyrir því að fá að vera kona. Mér hefur fundist of margar konur í fjölmiðlastétt detta í það að verða eins og karlarnir. Ég hef haft það að leiðarljósi að leyfa mínum mjúku gildum að njóta sín. Ég klæði mig eins og kona, hugsa eins og kona og haga mér eins og kona, enda er ég stolt af mínu kyni.
Ég heyri á kvenráðherrunum að þeim hefur fundist eins og þær væru hjáróma í pólitískri umræðu sem er á karlaforsendum. Þetta gerist ósjálfrátt ef konur eru í miklum minnihluta á vinnustað. Þetta gildir líka á fjölmiðlum. Í byrjun fjölmiðlaferils míns var mér sagt við hverja ég ætti að tala og ég átti að tala við karla. Það var ekki fyrr en ég fór aftur í nám sem ég áttaði mig á hvað það er mikilvægt að einstaklingurinn fái að vera hann sjálfur en falli ekki í fyrirfram ákveðið mót. Árið 1987 gerði ég rannsókn á hlut kvenna í íslenskum sjónvarpsfréttum og hann var vægast sagt mjög lítill. Á meðan konur eru ekki jafn sterkar og karlar inni á fjölmiðlum þá fara ungar konur oft að leika karla og þora ekki að taka á málum sem þeim þykja áhugaverð. Ný talning Creditinfo á fólki í fréttum og þáttum fyrir konur í atvinnulífinu staðfestir að betur má ef duga skal. Enn eru karlarnir um 70 prósent viðmælenda. Við erum að senda út vond skilaboð til ungra kvenna með þessu og verðum að leiðrétta þessa slagsíðu og gera konur jafn sýnlegar og karlmenn í fjölmiðlum.
Fyrir skömmu heimsótti ég hinn þekkta Columbia-háskóla í New York. Í Columbia-háskólanum eru fleiri konur en karlar í fjölmiðlanámi. Prófessor sem ég hitti þar sagði þegar þetta barst í tal: Konur eru betri námsmenn en karlar, betur skrifandi og hafa meiri áhuga á hinum mannlega þætti og það eru þessir þættir sem draga þær í blaðamennsku. Ef áhuginn á hinum mannlega þætti fær að lifa og ekki er reynt að skella konunum inn í karlamót þá verða fjölmiðlarnir betri sem meðal annars mun leiða til aukins sýnileika á konum og fréttamálum sem þeim tengjast.“