Vildu fá skýrsluna afhenta fyrr

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Talsverð umræða skapaðist við upphaf þingfundar á Alþingi í dag um skýrslu hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar sem birt var í dag. Umræðan snerist þó ekki um innihald skýrslunnar heldur hvernig staðið var að því að kynna hana fyrir þingmönnum.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hóf umræðuna og kvartaði yfir því að Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, hefði ekki verið reiðubúinn að beita sér fyrir því að fjárlaganefnd fengi skýrsluna afhenta þegar ósk barst um það á dögunum frá tilskildum meirihluta fulltrúa í nefndinni. Einar tók til máls og sagði að hann hefði ekki neitt vald til þess að tukta menn til í þeim efnum en gæti reynt að beita áhrifum sínum og hefði gert það.

Stjórnarandstöðuþingmenn gagnrýndu að skýrslan væri einungis sett á í pósthólf þingmanna skömmu fyrir þingfund og skömmu áður en hún væri birt á heimasíðu forsætisráðuneytisins sem var gert klukkan þrjú í dag. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, benti hins vegar á að þegar ósk frá fulltrúum í fjárlaganefnd um að fá skýrsluna hafi borist hafi hún enn verið á vinnslustigi og hafi verið það þar til í lok síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert