„Ég hef í allt haust sinnt störfum í fjárlaganefnd, utanríkismálanefnd og svo haft þennan hagræðingarhóp með höndum. Hann er nú búinn að skila af sér, svo ég tel mig hafa tíma nú til að sinna þessu starfi,“ segir Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins og nýráðinn aðstoðarmaður forsætisráðherra.
Aðstoðarmannsstarfið er ólaunað og ekki með fastsettu starfshlutfalli. „Ég tek ekki neitt fyrir þessa vinnu, frekar en vinnuna við hagræðingarhópinn. Þetta er bara hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar, stefna þess stjórnarsáttmála sem lagt var upp með, og stefna ríkisstjórnarflokkanna segir að leita eigi leiða til að hagræða í opinberum rekstri. Ef ég get orðið að liði til þess, líkt og ég gerði með hagræðingartillögurnar, þá er ég bara ánægður með það,“ segir Ásmundur. Hluti af starfi Ásmundar sem aðstoðarmaður verður að hans sögn að vinna úr hugmyndum hagræðingarhópsins og koma þeim áfram.
Hann segist ekki vita til þess að þingmaður hafi áður gegnt starfi aðstoðarmanns ráðherra. „Hins vegar hefur það gerst oft á tíðum áður að þingmenn hafa tekið að sér tímabundin verkefni fyrir ráðherra í ríkisstjórn, rétt eins og fyrir ráðherranefndina og hagræðingarhópinn,“ bætir Ásmundur við.
<span>Aðspurður hvers vegna ráðningin sé með slíkum formlegum hætti þrátt fyrir að starfið sé ólaunað og ekki með fastsettu starfshlutfalli segir hann það vera vegna þess að vilji sé fyrir hendi til þess að<span><span> þarna undir geti fallið fleiri verkefni heldur en snúa að störfum hagræðingarhópsins, en að eftir sé að þróa þau. </span></span></span>Sjá frétt mbl.is:
<a href="/frettir/innlent/2013/11/12/asmundur_adstodar_sigmund/" target="_blank">Ásmundur aðstoðar Sigmund</a>