Blint verður í fyrramálið

Búast má við talsverðri snjókomu í fyrramálið á höfuðborgarsvæðinu.
Búast má við talsverðri snjókomu í fyrramálið á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Golli

Skil frá nýrri lægð nálgast landið sunnanvert í kvöld og nótt. Seint í nótt og í fyrramálið er reiknað með talsverðri snjókomu um sunnan- og suðvestanvert landið þar með talið á Höfuðborgarsvæðinu. Eins strekkingsvindur, eða 10-15 m/s og því má búast við að víða verði nokkuð blint framan af morgni. Þetta kemur fram í ábendingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar.

 Autt er að mestu á Suður- og Suðausturlandi en vetrarfærð í  öðrum landshlutum með hálku eða snjóþekju og éljagangi og skafrenningi á Norðaustur- og Austurlandi. Flughált er á Dynjandisheiði.

 Hálkublettir eru á Mosfellsheiði en annars eru vegir á Suður- og Suðausturlandi greiðfærir.

Á Vesturlandi er hálka á flestum fjallvegum og hálkublettir nokkuð víða á láglendi.

 Hálka eða hálkublettir eru á flestum vegum á Vestfjörðum en flughált á Dynjandisheiði. Búið er að opna norður í Árneshrepp.

 Á Norðurlandi vestra er víða hálka eða hálkublettir  en á Norðurlandi eystra er snjóþekja og hálka á vegum og víða skafrenningur og éljagangur. Þæfingsfærð á Hólasandi en  Dettifossvegur er þungfær.

 Það er hálka eða hálkublettir  á vegum á Austurlandi  og skafrenningur á flestum fjallvegum. Vegurinn frá Fáskrúðsfirði og áfram með suðausturströndinni er þó greiðfær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert