Einn blóðdropi getur skipt sköpum

Blóðsykurinn verður mældur víða um land.
Blóðsykurinn verður mældur víða um land. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Lionsfélagar efna til sykursýkimælinga um allt land á næstunni í tilefni af alþjóðadegi sykursjúkra. Þar getur einn blóðdropi skipt sköpum en mælingin er ofureinföld og tekur skamma stund. Lions stendur jafnframt fyrir málþingi um sykursýki í tengslum við daginn. Málþingið verður haldið í Snæfelli á 2. hæð Hótels Sögu miðvikudaginn 13. nóvember kl. 17-19.

Meðal fyrirlesara á málþinginu, sem ber yfirskriftina „Er sykursýki faraldur 21. aldarinnar”, er Rafn Benediktsson yfirlæknir innkirtlalækninga á LSH. 

„Níu af hverjum tíu einstaklingum með sykursýki eru með sykursýki af tegund 2,“ er haft eftir Rafni í fréttatilkynningu. „Sterk tengsl eru milli margra erfðavísa og tilurðar sjúkdómsins en langlífi og nútíma lifnaðarhættir okkar eru helstu orsakirnar fyrir því að algengi sykursýki hefur meira en tvöfaldast á síðustu 30 árum. Sé þessum heilsuvanda ekki sinnt af kostgæfni getur það leitt til alvarlegra fylgikvilla sem skerða lífsgæði og valda dauða.

Kostnaður einstaklinga og þjóðfélagsins í heild vegna sykursýki vex mjög hratt og í sumum löndum Evrópu fer fimmtungur heilbrigðisútgjalda í þennan eina sjúkdóm og fylgikvilla hans. Við á Íslandi þurfum betri upplýsingar um umfang vandans og hvernig okkur gengur að halda fylgikvillum hans í skefjum. Einnig er mikilvægt að finna upp nýjar og skilvirkari aðferðir til þess að aðstoða fólk í baráttunni við þennan ævilanga og ólæknandi sjúkdóm. Þar getur tæknivæðing af ýmsum toga hjálpað en það kostar fjármuni núna. Fé sem á endanum mun spara þjóðfélaginu mikið í beinhörðum peningum svo ekki sé minnst á bætt lífsgæði og betri lífslíkur.”

Meðal annarra fyrirlesara eru Sigríður Jóhannsdóttir formaður Samtaka sykursjúkra og Guðrún Björt Yngvadóttir sem kynnir Lionshreyfinguna og verkefni hennar. Reynslusögur flytja Lionsmaðurinn Gunnar Vilbergsson en hann er með sykursýki og Inga Heiða Heimisdóttir varaformaður Dropans sem er styrktarfélag barna með sykursýki. Fundarstjóri er Fríða Bragadóttir framkvæmdastjóri Samtaka sykursjúkra og er málþingið öllum opið án endurgjalds.

Sjá má dagskrá þingsins og tímasetningar blóðsykursmælinga Lionsmanna á www.lions.is.

Lionshreyfingin á Íslandi hefur gefið út fræðslubækling um sykursýki, orsakir og afleiðingar, og margir klúbbar hafa boðið upp á ókeypis blóðsykursmælingar í sínum byggðarlögum. Samkvæmt skýrslum klúbba finnast yfirleitt í hverri skimun tveir til fjórir sem ástæða er að skoða nánar og senda til heimilislæknis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka