„Hvað vakir fyrir fólki?“

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég vek athygli á því að síðasta ríkisstjórn var með hagræðingarhópa sem í voru háttvirtir þingmenn. Hverjir vissu um þá hópa? Enginn. Það vissi enginn um þá hópa, það fékk enginn að senda inn tillögur, ábendingar eða nokkurn skapaðan hlut. Almenningur fékk aldrei að vita af þeim.“

Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum á Alþingi í dag um tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar sem hann átti sæti í en tillögur hópsins voru gerðar opinberar í gær. Vísaði Guðlaugur þar til þess að þingmenn í stjórnarandstöðunni, ekki síst úr röðum Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, hafi viljað fá að vita við hverja hagræðingarhópurinn hefði talað í störfum sínum.

„Ég hlýt að spyrja: Hvað vakir fyrir fólki? Nú er alveg vitað að fjölmargir höfðu samband. Það voru persónuleg samtöl. Fólk vildi koma upplýsingum á framfæri og hvað mætti betur fara. Er það virkilega þannig að menn vilji lista það fólk upp hér?“ sagði hann og bætti við: „Ég held að háttvirtir þingmenn vinstri-grænna ættu aðeins að skoða eigin orð og gerðir áður en þeir fara fram á hluti eins og þessa.“

Tillögur sem komust ekki „í gegnum nálaraugað“

Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður VG, hafði áður í umræðunni ítrekað beiðni minnihlutans í fjárlaganefnd Alþingis um að fá afhent gögn um störf hagræðingarhópsins. „Við óskuðum eftir því að vita hverjir væru gestir hópsins. Voru það einstaklingar, hagsmunasamtök, voru það félagasamtök? Var öllu skilað munnlega eða voru skilin eftir einhver minnisblöð? Við höfum ekki fengið að vita eða sjá fundargerðir og hvort hópurinn hélt marga fundi.“ Undir það tók Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.

Þá óskaði Bjarkey eftir upplýsingum um tillögur sem ekki hefðu „komist í gegnum nálaraugað“ en skilja hafi mátt á Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, á þingi í gær að það hefði átt við um einhverjar tillögur. „Æskilegt væri að vita hverjar þær hefðu verið helstar og á hvaða forsendum þeim var þá hafnað. Voru það pólitísk rök eða fjárhagsleg rök?“ sagði hún og ennfremur: „Við mundum vilja vita og fá afrit af gögnum og tillögum sem hópnum bárust utan frá, til hverra hann leitaði eftir tillögum, hugmyndum og ráðleggingum. Því að fram hefur komið að á netið hafi komið ýmsar tillögur. En það hefur ekki komið fram nein sundurliðun að öðru leyti. Hver eru faglegu rökin á bak við þessar tillögur?“

Guðlaugur tók aftur til máls og hvatti þingmenn til þess að verja tímanum frekar til þess að ræða efni tillagna hagræðingarnefndarinnar í stað þess að ræða einungis um það hvernig staðið hafi verið að birtingu þeirra.

Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður VG.
Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður VG.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert