Mannréttindi brotin eða ekki?

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekkert sem bendir til þess að mannréttindabrot hafi átt sér stað þannig að við skulum nú fara varlega í að fullyrða um slíkt áður en það liggur fyrir,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, í sérstakri umræðu sem fram fór á Alþingi í dag um stöðu flóttamanna og meðferð þeirra.

Málshefjandi var Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, og spurði hún Hönnu Birnu hvað hún ætlaði að gera til þess að koma í veg fyrir að mannréttindabrot, eins og þau sem átt hefðu sér stað í aðgerðum sérsveitar lögreglu í Auðbrekku í Hafnarfirði í lok september þar sem hælisleitendur hafi verið handteknir í húsnæði sem Reykjanesbær hafði leigt fyrir þá. Fjöldi lögreglumanna hafi tekið þátt í aðgerðunum auk fíkniefnahunda. Hurðir hefðu verið brotnar upp og hælisleitendurnir handteknir á nærfötunum einum fata og síðan látnir dúsa lengi í fangaklefum.

Hanna Birna benti á að ef einhverjir teldu að á sér hafi verið brotið í aðgerðunum væri þeim frjálst að leggja fram kæru vegna þess. Hins vegar benti allt til þess að Ísland færi að þeim samningum og sáttmálum í þessum efnum sem landið væri aðili að. „En þessi ráðherra sem hér stendur ætlar ekki, frekar en aðrir ráðherrar á undan hafa gert, að blanda sér í, hafa skoðanir á eða fella dóma um einstaka lögregluaðgerðir. Það er ekki hlutverk ráðherra.“

Birgitta sagðist aðeins hafa verið að vitna til Pia Prytz Phiri, talskonu Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, þess efnis að allt útlit væri fyrir að brotið hafi verið á mannréttindum mannanna.

Regla að norskri fyrirmynd til skoðunar

Fleiri þingmenn tóku til máls og var einkum tíðrætt um þann tíma sem það tæki að afgreiða umsóknir um hæli hér á landi. Hanna Birna tók undir þá gagnrýni og sagði að unnið væri að því að færa þau mál til betri vegar. Meðal annars hefði verið horft til Noregs þar sem tekið hefði verið upp sú regla að tekin væri ákvörðun um það innan 48 klukkustunda hvort umsókn væri hafnað eða hvort skoða þyrfti málið frekar.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók hins vegar undir með ráðherranum um að ekkert benti til þess að mannréttindi hefðu verið brotin í umræddri aðgerð lögreglunnar. Benti hann þingmönnum á að hægt væri að bera undir dómstóla rannsóknaraðgerðir lögreglu og eins ættu handteknir menn rétt á verjanda til þess að gæta hagsmuna sinna.

„Þannig er gangurinn í þessum málum og ég get alveg upplýst ykkur einnig um það, eftir að hafa eytt hálfri ævinni með handteknum mönnum, að þeir telja iðulega að brotið hafi verið á sér við rannsókn mála. Það má vel vera og ég útiloka það ekki eins og hefur oft gerst að lögregla kunni að hafa farið offari en það kemur þá í ljós ef tilefni er til að skoða það.“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert