„Við fylgjumst með og erum meðvituð um málið en það hefur ekki komið nein beiðni um að við sendum rústabjörgunarsveit frá okkur,“ segir Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við mbl.is spurður hvort slík beiðni hafi borist vegna neyðarástandsins á Filippseyjum í kjölfar þess að fellibylurinn Haiyan gekk yfir landið.
„Okkar tengiliðir fylgjast vel með málinu og eru í sambandi við yfirvöld vegna þess,“ segir Jón Svanberg. Hann segir aðspurður að ef slík beiðni bærist væri félagið undirbúið undir það að bregðast við því.
„Við erum með aðþjóðabjörgunarsveit sem hefur sinnt slíkum málum og ef slík beiðni kemur þá fer ákveðið ferli í gang. Það er þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að senda hana á vettvang.“