Telur skuldirnar sjálfbærar

Stjórnendur Reykjanesbæjar þurfa að senda Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna nýja …
Stjórnendur Reykjanesbæjar þurfa að senda Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna nýja áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að koma skuldahlutfalli niður í 150%.

Þórir Ólafsson, formaður Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaganna, telur að þó að skuldir Reykjanesbæjar séu mjög miklar eigi sveitarfélagið að geta ráðið við þær. Skuldahlutfall bæjarsjóðs var 257% af tekjum um síðustu áramót.

Ný sveitarstjórnarlög tóku gildi í ársbyrjun 2012, en samkvæmt þeim má skuldahlutfall sveitarfélaganna ekki vera hærra en 150%. Sveitarfélög sem ekki uppfylla þetta ákvæði þurfa að skila Eftirlitsnefndinni áætlun um hvernig og hvenær þau ætla að ná þessu hlutfalli niður í 150%.

Samþykkti ekki áætlanir frá þremur sveitarfélögum

39 sveitarfélög þurftu að senda Eftirlitsnefndinni aðlögunaráætlun vegna þessa. Flest þeirra ætla sér að komast niður í 150% strax á næsta kjörtímabili. Nefndin hefur samþykkt allar áætlanir nema frá Reykjanesbæ, Breiðdalsvík og Norðurþingi.

Þórir segir að þessi þrjú sveitarfélög hafi sent nefndinni áætlanir, en nefndin hafi ekki samþykkt þær eða óskað eftir frekari upplýsingum um einstök atriði. Hann segir að nefndin og sveitarfélögin séu að fara betur yfir þessa hluti og hann á ekki von á að það taki langan tíma fyrir nefndina að samþykkja nýjar áætlanir frá sveitarfélögunum.

Bæjarsjóður Reykjanesbæjar skuldar 22,3 milljarða og samstaðan öll skuldar 37,5 milljarða. Skuldahlutfall bæjarsjóðs er 257%. Þórir segir að þetta séu miklar skuldir, en hann segist telja að sveitarfélagið ráði við þær og sé sjálfbært. Nefndin hafi ekki talið ástæðu til að grípa inn í fjármál Reykjanesbæjar.

Þórir segir að eitt af því sem valdi Reykjanesbæ erfiðleikum séu miklar skuldir hafnarsjóðs, en sjóðurinn hefur verið rekinn með halla undanfarin ár.

Stór hluti tekna fer í að standa undir skuldum

Þórir segir að þegar skuldahlutfall sveitarfélaga sé 150% fari um 15% tekna sveitarfélagsins í að standa undir skuldunum. Þegar skuldahlutfallið sé enn hærra fari hærra hlutfall teknanna í fjármagna skuldirnar. Við þessar aðstæður séu þrír möguleikar í stöðunni. Í fyrsta lagi að sveitarfélagið sé með einhverja þá tekjustofna sem auðveldi því að standa undir skuldunum, í öðru lagi að leggja þurfi auknar álögur á íbúa til að standa undir skuldum og í þriðja lagi að miklar skuldir leiði til versnandi rekstrarstöðu.

Eftir að Álftanes sameinaðist Garðabæ er Sandgerði skuldugasta sveitarfélag landsins, en skuldahlutfall bæjarsjóðs var 275% um síðustu áramót. Þar á eftir koma Reykjanesbær og Fjarðabyggð með 257%.

„Við yfirferð á fjármálum sveitarfélaga verður ekki annað séð en að þróunin sé jákvæð þegar á heildina er litið, veltufé frá rekstri fari hækkandi en aukning þess er forsenda þess að skuldsettum sveitarfélögum takist að greiða niður skuldir sínar. Þrátt fyrir að þróunin sé almennt jákvæð eru mörg sveitarfélög svo skuldsett að fyrirséð er að nokkur ár þarf til að skera úr um hvort þau ráða við stöðuna,“ segir í ársskýrslu Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert