Vilja nemendur greiða 700 krónur?

Nemendur Háskóla Íslands eru nú hvattir að taka þátt í könnun á Uglunni, innra svæði nemenda og kennara, en könnuninni er ætlað að varpa ljósi á ferðavenjur til og frá skólanum.

Þar er meðal annars spurt hvort nemendur væru tilbúnir að greiða 700 krónur fyrir bílastæði við skólann. Að sögn Sigurlaugar Lövdahl, skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs, stendur ekki til að leggja á gjaldskyldu í fleiri stæði við Háskóla Íslands í náinni framtíð.

Tilbúin að greiða 700 krónur fyrir bílastæði?

Í könnuninni er meðal annars spurt hversu líklegt nemandinn telji að hann muni hætta að koma á einkabíl í Háskóla Íslands, kosti bílastæði 700 krónur á dag. Þá er settur fram sá möguleiki að gjaldskylda hafi verið tekin upp á öllum bílastæðum Háskóla Íslands, það kosti 700 krónur að leggja bílnum en stæðið sé ókeypis ef nemandinn mæti fyrir ákveðinn tíma og er nemandinn beðinn um svara til um hversu snemma hann myndi mæta til að fá ókeypis vel staðsett stæði.

Í dag er gjaldskylda í skeifunni fyrir framan aðalbyggingu skólans og á svæði milli húsanna Nýja-Garðs og Gimlis. Að sögn Sigurlaugar hefur ekki verið tekin ákvörðun um að leggja á gjaldskyldu í fleiri stæði við skólann, og verður ekki gert nema í stærra samhengi og þá væntanlega sameiginlega með LSH og HR. Slíkt þarf langan aðdraganda og stendur ekki til í náinni framtíð. Hún segir að tilgangur könnunarinnar sé aðallega að leiða í ljós hvenær nemendur og starfsfólk koma inn á háskólasvæðið á daginn og er hún gerð í samráði við verkfræðistofu á höfuðborgarsvæðinu.

Sigurlaug segir að skólinn hafi fyrst kannað ferðavenjur nemenda árið 2008 og þá hafi meðal annars verið spurt hversu mikið nemendur væru tilbúnir að greiða fyrir bílastæði. Árið 2011 var aftur gerð könnun, en þá var lögð áhersla á að kanna hvort ferðavenjur nemenda hefðu breyst í kjölfar efnahagshrunsins. Í ljós kom að ferðavenjur nemenda höfðu afar lítið breyst.

Stefnan ekki að fjölga bílastæðum

„Nemendum hefur fjölgað og eftir því sem byggingum fjölgar, þá fækkar bílastæðum,“ segir Sigurlaug og bætir við að stefnan hafi ekki verið að fjölga bílastæðum. Hún segir strætisvagnasamgöngur í nágrenni skólans góðar og mjög víða erlendis greiði háskólanemendur fyrir bílastæðin.

Sigurlaug segir að greinilegt er að æ fleiri komi á hjóli og nýting hjólreiðastæða við Háskóla Íslands sé mjög góð. Meginhluti fjárhæðarinnar sem kemur inn vegna gjaldskyldra bílastæða við HÍ rennur til Bílastæðasjóðs en þó fer einnig nokkur upphæð til skólans og hefur hún verið nýtt til að bæta aðstöðu hjólreiðafólks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert