Bílar munu ekki komast í stæðin

Íbúi sýnir þrenginguna á stæðinu.
Íbúi sýnir þrenginguna á stæðinu.

Íbúar á Tryggvagötu 4-6 í Reykjavík hafa mótmælt harðlega fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi sem leiða m.a. til þrengingar á aðkeyrslu að bílastæðum á suðurhlið hússins. Verði af breytingunum, sem þegar hafa verið samþykktar í umhverfis- og skipulagsráði, mun aðkeyrslan þrengjast um rúman metra; úr þremur metrum í tæpa tvo. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir að fjögur bílastæði á lóðinni lokist af.

Að sögn Valgerðar Jónsdóttur, formanns húsfélagsins, hafa íbúar mótmælt fyrirhuguðum breytingum á öllum stigum málsins. Í bréfi til borgarráðsfulltrúa bentu þeir á að það væri í raun ófært fyrir bíla í bílastæðin þar sem meðalbreidd bifreiða er 2,2 metrar. Mikill bílastæðaskortur er við húsið. Norðanvert við það hafa risið ýmis fyrirtæki, hótel og veitingastaðir sem fækkað hafa bílastæðakostum.

Kvöð ríkt á eiganda frá 2004

Gengið er inn í tvær íbúðir af þeim 38 sem eru í húsinu frá suðurhliðinni. Ástæðu þess að þrengja á aðkeyrsluna með þessum hætti má rekja til þess að eigandi Hlíðarhúsa, sem standa við suðurhlið Tryggvagötu 4-6, á lóðina sem keyrt er yfir að hluta þegar farið er að bílastæðunum og lóðinni. Valgerður segir að frá árinu 2004 hafi ríkt kvöð á eiganda lóðarinnar um að hleypa umferð þar um. Í nýju deiliskipulagi eigi hins vegar að breyta því. Hún segir að íbúar hafi leitað lögfræðiálits vegna málsins. „Það er hefð fyrir umferð þarna a.m.k. síðustu fjörutíu árin. Ef þetta verður samþykkt getur eigandinn t.d. sett upp girðingu til þess að skorða lóðina af.

Tryggvagata 4-6 er einnig þekkt undir nafninu Hamarshús og var áður notuð sem iðnaðarhúsnæði. Valgerður segir að íbúar hafi bent á vandann áður en umhverfis- og skipulagsráð samþykkti breytingar á skipulaginu. Telur hún að mótmæli á kynningarfundum og umsagnir lögmanna hafi ekki verið tekin til greina.

Valgerður bendir á að á næsta ári standi til að gera við kjallara hússins. Telur hún að ef aðgengið verður heft komist vinnuvélar ekki að. Þá hafa íbúar bent á að aðgengi brunabíla verði heft að suðurhlið hússins. Að sögn Valgerðar er búið að hafa samband við slökkviliðsstjóra, sem mun gera úttekt. Sú úttekt á að liggja fyrir á fimmtudag. Til stendur að taka málið til umfjöllunar í borgarráði á morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert