Opinber heimsókn Margrétar II Þórhildar Danadrottningar hófst í Þjóðmenningarhúsinu rétt fyrir klukkan ellefu í morgun. Eftir stutta tölu Sigurðar Líndal, forseta Hins íslenska bókmenntafélags, afhentu sagnfræðingarnir Guðjón Friðriksson og Jón Þ. Þór drottningu fyrsta eintakið af tveggja binda verki sínu um Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands í 500 ár. Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands var einnig fært eintak. Margrét Þórhildur og Ólafur Ragnar glugguðu um stund saman í eintök sín og skiptust á orðum um bækurnar.
Að þeirri athöfn lokinni gekk Margrét Þórhildur um handritasýninguna í Þjóðmenningarhúsinu í leiðsögn dr. Guðrúnar Nordal forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar. Drottningin stoppaði lengi við handrit Flateyjarbókar og virtist hafa mikinn áhuga á þeirri merku sögu.
Nú klukkan hálf tvö hlýðir drottning á afmælisfyrirlestur dönsku fræðikonunnar Annette Lassen í hátíðasal Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn ber heitið Sagaer i samtiden: Árni Magnússons storslåede arv. Við það tækifæri munu jafnframt flytja ávörp Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra, Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar. Í kjölfar hátíðardagskrár í Háskóla Íslands mun Danadrottning heimsækja tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu.
Drottning verður síðan viðstödd opnun sýningarinnar Íslenska teiknibókin – 350 ára afmæli Árna Magnússonar í Gerðarsafni í Kópavogi síðdegis. Þar munu Guðbjörg Kristjánsdóttir sýningarstjóri og Guðrún Nordal flytja ávörp en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra opnar sýninguna.
Dagskrá vegna 350 ára afmælis Árna Magnússonar handritasafnara lýkur með viðamikilli hátíðardagskrá í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Forseti Íslands og forsætisráðherra flytja ávörp auk fræðimanna og rithöfunda; tónlistarmenn og leikarar bjóða til fjölbreyttrar dagskrár sem helguð er íslenskum miðaldabókmenntum og arfleifð Árna Magnússonar.