Létu eins og þeir hefðu unnið HM

Björn Þorvaldsson (t.h.) sérstakur saksóknari.
Björn Þorvaldsson (t.h.) sérstakur saksóknari. mbl.is/Rósa Braga

Starfsmenn Kaupþings banka létu eins og þeir hefðu unnið heimsmeistaramótið í knattspyrnu þegar tilkynnt var um kaup Al-Thani á 5,01% hlut í bankanum haustið 2008. Fjölmiðlar tóku þátt í fögnuðinum en aðeins örfáir vissu að bankinn sjálfur var á bak við allt saman. Þetta sagði saksóknari í morgun.

Björn Þorvaldsson, saksóknari í máli sérstaks saksóknara gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni, Magnúsi Guðmundssyni og Ólafi Ólafssyni, hóf málflutning í Al-Thani-málinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. 

Meðal þess sem Björn benti á var að Lehman Brothers féllu í vikunni áður en viðskiptin voru gerð, fjármálaumhverfið var gríðarlega óstöðugt og því hafi tilkynning um kaup vellauðugs sjeiks frá Katar í Kaupþingi komið eins sigur á heimsmeistaramóti. „Óhætt er að fullyrða að viðbrögð markaðarins voru vægast sagt jákvæð,“ sagði Björn. „Aðrir sögðu að þetta væru bestu fréttir fyrir sem heyrst höfðust fyrir Ísland.“

Og Björn sagði fjölmiðla hafa tekið þátt í þessu með fyrirsögnum á borð við „Milljarðar frá Mið-Austurlöndum“ þegar sannleikurinn kom í ljós eftir fall bankans. Öll viðskiptin voru fjármögnuð af bankanum sjálfum og þrátt fyrir að Al-Thani ætti ótæmandi peningahirslur þurfti hann ekki að leggja fram eina krónu. „Ákærðu hefur verið tíðrætt um að engir peningar hafi farið út úr bankanum. En það komu heldur engir peningar inn í bankann. Allir héldu að það væru að koma peningar, erlendur gjaldeyrir, inn í bankann á erfiðum tímum.“

Björn sagði að það hefði aðeins verið eitt markmið með þessum viðskiptum, að auka tiltrú fjárfesta á bankanum. „Og af hverju ætti hún að aukast nema að fjárfestar héldu að það væru að koma inn 26 milljarðar af erlendum gjaldeyri inn í bankann.“

Hann sagði að blekkingin hafi náttúrlega falist í því að það komu ekki neinir peningar inn í bankann. Og tilkynnt hafi verið um það að Al-Thani hafi fjárfest og að bankinn hefði notið mikil traust hans, eftir ítarlega skoðun á bankanum. 

Nánar verður sagt frá málflutningi í Al-Thani málinu á mbls.is í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka