Þingmenn stjórnarandstöðunnar gerðu athugsemdir við ráðningu Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns Framsóknarflokksins, sem nýs aðstoðarmanns forsætisráðherra. Forseti Alþingis segist hafa farið yfir málið og sagði að hún stæðist fullkomlega.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, hóf umræðuna þegar þingmenn ræddu störf þingsins í dag. Hann sagði að það væri athyglisvert að Alþingi ætti að greiða launakostnað Ásmundar sem aðstoðarmanns, auk þess sem það vakti ekki síður upp spurningar um stjórnsýsluleg mörk löggjafar- og framkvæmdarvalds. Störf aðstoðarmanna byggi á lögum um stjórnarráð Íslands og þeir heyri beint undir ráðherra og lúti boðvaldi hans.
„Það hlýtur því að þurfa að koma til skoðunar, annars vegar hvort þetta sé eðlilegt fyrirkomulag að Alþingi greiði launakostnað aðstoðarmanns uppi í stjórnarráði og hins vegar hvort að þessi verkaskipting og trúnaðarskyldur, sem þarna vegast þá á - annars vegar maður sem starfar undir boðvaldi ráðherra og hins vegar maður sem er sem þingmaður bundinn af sannfæringu sinni einni hér á Alþingi. Ég legg til að hagræðingarhópurinn athugi hagræðingarþátt málsins og beini því til forseta og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að athuga hinn stjórnskipulega þátt,“ sagði Steingrímur.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að það væri til „skammar fyrir flokka sem leggja fram 111 niðurskurðar- og hagræðingartillögur að auglýsa á sama tíma sífellda fjölgun Framsóknarmanna í starfsmannahaldi stjórnararáðsins.“
Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður VG, spurði hvort það væri eðlilegt að handhafi löggjafarvaldsins gerist aðstoðarmaður handhafa framkvæmdavaldsins. Hún sagði að það væri vafasamt að þingmaður skuli vera settur undir boðvald ráðherra.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, tók í framhaldinu til máls. Hann sagðist hafa skoðað ráðningu Ásmundar sem aðstoðarmanns forsætisráðherra. „Það er augljóst mál að þessi mál standast fullkomlega,“ sagði Einar og bætti við að Ásmundur myndi áfram sinna sínum þinglegu skyldum. Það væri ekki óþekkt að þingmenn sinntu öðrum störfum, bæði launuðum og ólaunuðum utan þingsins án þess að því því væri fundið.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, furðaði sig á viðbrögðum stjórnarandstöðunnar vegna ráðningarinnar. „Hvaða taugaveiklun er þetta? Þetta hefur ekki verið gert áður og er einhver ástæða til þess að fara fullkomlega yfir um út af því, “ spurði Guðlaugur.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það álitamál að þingmaður skuli gerast aðstoðarmaður ráðherra en taki sér ekki hlé frá þingstörfum á meðan. Hún spurði forseta Alþingis hvort hann hefði ekki áhyggjur af því að þingmenn, aðrir en ráðherrar, skuli starfa fyrir framkvæmdavaldið sem aðstoðarmenn. „Telur hæstvirtur forseti ekki að þarna sé enn frekar verið að má út skilin milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, og þrískiptingu valds samkvæmt stjórnarskrá sé raskað,“ spurði Oddný.
Einar tók þá aftur til máls og ítrekaði fyrri ummæli. Hann sagði að um tímabundna ráðningu væri að ræða til skilgreindra verkefna. „Háttvirtur þingmaður nýtur síðan ekki sérstakra launa í þessu nýja verkefni,“ sagði Einar.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, sagði það undarlegt að formaður hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar væri orðinn aðstoðarmaður forsætisráðherra. Það er að hennar mati mjög óeðlilegt. Þingmenn eigi að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu. „Þarna er verið að stíga skref í allt aðra átt en verið hefur. Ég tel að við öll sem þingmenn hérna inni eigum að vera aðstoðarmenn hæstvirts forsætisráðherra,“ sagði hún og bætti við að hún væri alveg reiðubúin til að gera þá að án þess að taka sérstaka greiðslu fyrir það.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, tók aftur til máls í lok umræðunnar. Hann sagðist undrast viðbragðsflýti forseta Alþingis í þessu máli, þ.e. að starfandi þingmaður hefði verið ráðinn aðstoðarmaður ráðherra, og sagðist ekki sáttur við svör forseta Alþingis. „Spurningin er hvernig það fer saman að alþingismaður sem undirritar drengskaparheit að stjórnarskránni sem felur það í sér að viðkomandi skal fylgja sannfæringu sinni og engu öðru, og ekki taka við tilmælum frá öðrum, sé ráðinn aðstoðarmaður sem lýtur beinu boðvaldi viðkomandi ráðherra og starfar samkvæmt erindisbréfi sem honum er sett,“ sagði Steingrímur.
Öðru máli gegndi ef viðkomandi færi í launalaust leyfi sem þingmaður og varamaður hans tæki sæti hans á þingi. „Mér finnst þetta vera afgreitt hér með allt of léttvægum hætti. Ég tel að þetta sé mikilvægt grundvallarmál. Hefur ekkert með það að gera hvaða viðkomandi einstaklingur á í hlut né heldur þess vegna hvaða ráðherra ræður hann,“ sagði Steingrímur og sagði að Alþingi ætti að taka málið til skoðunar, þ.e. hvort þetta teldist vera eðlilegt fyrirkomulag.
„Það er sjálfsagt að verða við því ef að háttvirtur þingmaður óskar eftir að yfir þessi mál sé farið rækilegar. En það er engu að síður svo, að þessi sólarhringur eða tæplega það, dugði forseta til að komast að þessari niðurstöðu sem hann kunngerði áðan,“ sagði Einar og bætti við að það sem sneri að Alþingi væri viðunandi.