„Það versta sem ég hef lent í“

„Ég sé eftir því að hafa keypt þessa öryggisíbúð,
„Ég sé eftir því að hafa keypt þessa öryggisíbúð," segir Sigurður Hólm Guðmundsson. mbl.is

„Ég hef verið til sjós í um 50 ár og kynnst ýmsu á þeim tíma, en þetta er það versta sem ég hef lent í,“ segir Sigurður Hólm Guðmundsson, íbúi í öryggisíbúðum Eirar. Hann lagði 18 milljónir í íbúðina á sínum tíma, en hann lítur á þær sem tapaðar.

Hjúkrunarheimilið Eir er í greiðslustöðvun sem rennur út 6. desember nk. Síðustu mánuði hafa stjórnendur Eirar unnið að því að koma á nauðasamningi og hefur íbúum öryggisíbúðanna verið kynnt frumvarp að nauðasamningi sem gerir ráð fyrir því að íbúar fái í hendur skuldabréf til 30 ára með 3,5% vöxtum. Skuldabréfin verða tryggð með veði í öryggisíbúðum skuldarans og verða þau með síðasta veðrétti.

Sigurður segir ekki hægt að bera þetta skuldabréf saman við þær 18 milljónir sem hann greiddi fyrir íbúðina á sínum tíma. Þegar hann er spurður hvort hann treysti ekki þessum pappírum segir hann að hann hafi ekki haft ástæðu til að treysta stjórnendum Eirar fram að þessu.

Sigurður Hólm er 81 árs gamall og eiginkona hans, Sólveig María Björnsdóttir, er 91 árs gömul. Þau seldu íbúð sína í Breiðholti árið 2007 og keyptu öryggisíbúð hjá Eir fyrir 18 milljónir.

Sigurður sagði að hann hefði við undirritun samnings spurt Sigurð Helga Guðmundsson, þáverandi framkvæmdastjóra Eirar, hvort ekki þyrfti að þinglýsa samningnum. „Ekki hafa áhyggjur af því. Ég sé um það,“ svaraði Sigurður Helgi, að því er Sigurður Hólm segir. Hann segist hafa treyst því að rétt væri staðið að málum af hálfu Eirar.

Fengu umdeilt leyfi til að veðsetja Eir

Sigurður Hólm segist aldrei hafa gefið stjórnendum Eirar heimild til að veðsetja íbúðina sem hann býr í fyrir skuldbindingum Eirar. Það hafi hins vegar verið gert því árið 2010 óskaði stjórn Eirar eftir heimild til að verðsetja Hlíðarhús 7 og Fróðengi 1-11 fyrir samtals 2.650 milljónir króna. Sýslumaðurinn á Sauðárkróki gaf heimild fyrir veðsetningunni. Í framhaldinu var öðrum lánum þinglýst á fasteignir Eirar án þess að sýslumaðurinn fengi umsóknir til veðsetningar eða veitti heimild til þess.

Þessar veðsetningar eru umdeildar, en um þær er fjallað sérstaklega í skýrslu sem Deloitte gerði um Eir og dagsett er 3. júlí í sumar. Í skýrslunni segir að stjórn sjóðs eða sjálfseignarstofnun sé ekki heimilt að veðsetja eignir nema með skýrri heimild sýslumanns. Deloitte segir að þetta ákvæði laga sýni betur en margt annað að varðveisla fjármuna sé ekki einkamál stjórnar.

Stjórn Eirar sendi „örstutt bréf“, eins og segir í skýrslu Deloitte, til sýslumannsins á Sauðárkróki þar sem óskað er eftir veðsetningu. Í framhaldi óskaði sýslumaður eftir umsögn Ríkisendurskoðunar. Sýslumaður telur að umsögn Ríkisendurskoðunar feli í sér að stofnunin kanni hvort stjórnin hafi sent árlega reikninga, reikningsskil séu í lagi og starfað sé eftir staðfestri skipulagsskrá. Sýslumaður telur að Ríkisendurskoðun meti hins vegar ekki fjárhagsstöðu eða rekstrarforsendur veðsettra eigna.

Ríkisendurskoðun gerði í umsögn sinni ekki athugasemdir við beiðnina þar sem fjárfestingarnar voru í þágu starfsemi Eirar eins og henni er lýst í skipulagsskrá.

Deloitte bendir á að Ríkisendurskoðun byggi mat sitt á því hvort heimilt sé að veðsetja eignirnar á því að formsatriði séu uppfyllt, en ekki á eiginlegri könnun á fjárhagsstöðu Eirar.

Eigið féð hafði lækkað þegar framkvæmdir hófust

Deloitte telur hins vegar í skýrslu sinni að margt hafi verið að í rekstri Eirar á þessum tíma. Bent er á að skuldir Eirar höfðu aukist mikið og voru komnar upp í 6 milljarða árið 2009. „Eigið fé sjóðsins [Húsrekstrarsjóðs] hafði lækkað mikið eða úr 1.200 milljónum frá árinu 2007 og var 521 milljón í árslok 2009. Framkvæmdir við Fróðengi 1-11 hófust í ársbyrjun 2008 og átti að fjármagna þær að mestu með lántökum, verðtryggðum lánum til 40 ára, en ekki með eigin fé stofnunarinnar. Á þessum tíma var efnahagsástandið mjög slæmt í kjölfar falls íslensku bankanna. Þá má því ljóst vera að mikil áhætta fylgdi þessari fjárfestingu.“

Sigurður segir að íbúar á Eir hafi farið í dómsmál út af þessari veðsetningu, en ljóst sé að niðurstaða í því máli verði ekki fengin fyrir 6. desember þegar greiðslustöðvunartímabilið er á enda.

Hörð gagnrýni Deloitte

Í skýrslu Deloitte er að finna harða gagnrýni á þá sem stýrðu Eir fram til 2012. Bent er á að hjúkrunarheimilið og húsrekstrarsjóðurinn voru rekin á einni kennitölu. Aldrei var gert neitt áhættumat vegna húsrekstrarsjóðsins. Engar umræður voru bókaðar um greiðslu- eða rekstrarhæfi sjóðsins frá því stjórn Eirar samþykkti framkvæmdir við Fróðarengi 1-11 í byrjun árs 2007 fram að stjórnarfundi þann 10. mars 2011.

Deloitte gagnrýnir stjórnunarhætti hjá Eir. Það sé ekki eðlilegt að sami einstaklingurinn sé stjórnarformaður Eirar og sinni verkefnum framkvæmdastjóra Eirar. Óheppilegt sé að sami aðili sé formaður fulltrúaráðs og formaður stjórnar. Þetta geri það að verkum að hann sé í þeirri stöðu að hafa eftirlit með rekstri sem hann er sjálfur í fyrirsvari fyrir sem ábyrgðaraðili.

Ófarir Eirar má rekja til þess að ákveðið er að halda áfram með byggingu öryggisíbúða að Fróðengi 1-11 eftir hrun bankanna haustið 2008. Flest fyrirtæki og opinberir aðilar ákváðu á þeim tíma að stöðva framkvæmdir, m.a. vegna þess að erfitt var að fá lán og mikil óvissa var framundan. Það kom líka á daginn að erfiðlega gekk að selja öryggisíbúðirnar. Þegar ákvörðun um framkvæmdir var tekin voru um 400 einstaklingar á biðlista, en margir kipptu hins vegar að sér höndum eftir hrun, m.a. vegna þess að fólki gekk illa að selja eignir sínar, sem var forsenda þess að fólk gæti fjárfesti í öryggisíbúð hjá Eir.

Vissu að borgin ætlaði að fresta framkvæmdum

Stjórnendur Eirar hafa bent á að ein ástæða þess að eftirspurn eftir íbúðunum var minni en reiknað var með er að Reykjavíkurborg stóð ekki við fyrirheit um byggingu þjónustu- og menningarstöðvar við Eir. Í skýrslu Deloitte er bent á að í desember 2008 sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, í umræðum um fjárhagsáætlun borgarinnar að borgin ætlaði að fresta framkvæmdum eins og kostur væri. Deloitte telur að stjórnendum Eirar hefði mátt vera fullljóst að borgin ætlaði ekki að fara af stað með þessa framkvæmd, m.a. vegna þess að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, stjórnarformaður Eirar, var á þessum tíma einnig forseti borgarstjórnar.

„Mér finnst þetta mál grafalvarlegt og mun verra en ég hafði reiknað með,“ segir Sigurður Hólm, en hann hefur reynt að grafast fyrir um skýringar á því hvers vegna 18 milljónirnar sem hann lagði fram vorið 2007 eru að breytast í skuldabréf til 30 ára.

Í samningnum sem Sigurður skrifaði undir á sínum tíma segir að ef samningnum sé sagt upp eða íbúi falli frá sé framlagið greitt út innan sex mánaða. Eftir að Eir fór í greiðslustöðvun er þetta ekki lengur í boði.

Neitaði að borga fasteignagjöld og viðhald

Ár er liðið síðan upplýst var um erfiða fjárhagsstöðu Eirar. Sigurður segir að frá þeim tíma hafi nokkrar íbúðir losnað, m.a. vegna andláts íbúa. Hann segir að stjórnendur Eirar hafi leigt þessar íbúðir, en erfingjar eða þeir sem bjuggu í þeim fái ekki neitt. Eir taki leigutekjurnar til sín. „Þetta sýnir vel að Eir lítur á þessar íbúðir sem sína eign,“ segir Sigurður.

Frá því að Sigurður flutti í öryggisíbúðina hefur hann greitt Eir um 23 þúsund krónur á mánuði í þjónustugjald. Íbúar á Eir greiða einnig 17-23 þúsund krónur í viðhald og síðan greiða þeir fasteignagjöld af íbúðunum. Eftir að Eir fór í greiðslustöðvun hætti Sigurður hins vegar að greiða fasteignagjöld og gjald fyrir viðhald. Hann greiðir hins vegar áfram þjónustugjaldið. Sigurður segist ekki sjá að Eir geti gert kröfu um að hann greiði þessi gjöld eftir það sem á undan sé gengið. Hann segist í fyrstu hafa fengið greiðslukröfu frá Eir, en hann hafi þá ítrekað við stjórn Eirar að hann myndi ekki borga. Eftir það hafi Eir ekki reynt að innheimta þessi gjöld.

Sigurður Hólm segist hafa litið á íbúðina sem eign sína fyrst honum hafi verið gert að borga viðhald og fasteignagjöld af henni. Honum hafi einnig verið gert að greiða af fasteignaláni sem hvíli á íbúðinni. Eir virðist hins vegar ekki horfa á þetta sömu augum.

Elliárin ekki áhyggjulaus

Í samningnum sem Sigurður skrifaði undir vorið 2007 er talað um „búseturétt“ og „búseturéttarhafa“. Lög um húsnæðissamvinnufélög frá árinu 1998 skilgreina nákvæmlega hvaða réttindi og skyldur fylgja búseturétti. Í samningnum er hins vegar hvergi vísað til laganna og er raunar vandséð að samningurinn uppfylli ákvæði laganna enda er Eir alls ekki húsnæðissamvinnufélag.

Sigurður segist hafa viljað að saksóknari rannsakaði málefni Eirar. Íbúar hafi ekki bolmagn til að standa að slíkri rannsókn. Rannsókn Deloitte nái of skammt enda hafi stjórn Eirar tekið fram að fyrirtækið mætti ekki verja meira en 50 klukkustundum í úttekt sína.

„Ég sé eftir því að hafa keypt þessa öryggisíbúð. Það er sagt að maður eigi að njóta elliáranna áhyggjulaus, en því er ekki að heilsa í mínu tilviki,“ segir Sigurður.

Hann segir að þetta mál hafi tekið á íbúa og einnig starfsfólk. Hann tekur fram að á Eir starfi einstaklega gott starfsfólk sem leggi sig fram í störfum sínum.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, tók í haustið 2007 fyrstu …
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, tók í haustið 2007 fyrstu skóflustunguna að 111 nýjum öryggisíbúðum fyrir aldraða í Grafarvogi. mbl.is/Golli
Hjúkrunarheimilið Eir að Fróðengi 1-11 í Grafarvogi.
Hjúkrunarheimilið Eir að Fróðengi 1-11 í Grafarvogi. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert