Fjarvera Al-Thani skapar óvissu

Ólafur Ólafsson mætir í Héraðsdóm Reykjavíkur.
Ólafur Ólafsson mætir í Héraðsdóm Reykjavíkur. Mbl.is/Golli

Verjandi Ólafs Ólafssonar í Al-Thani-málinu svonefnda sagði það bagalegt að sjeik Al-Thani hefði ekki verið kvaddur fyrir dóm. Þar með væri ekki hægt að spyrja hann út í viðskiptin og lýsingu ákæruvaldsins á þeim. Það skapi óvissu í málinu og hana þurfi að túlka ákærðu í vil.

Aðalmeðferð í Al-Thani-málinu hélt áfram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þórólfur Jónsson, verjandi Ólafs Ólafssonar, flutti meðal annarra ræðu sína fyrir hádegið. Hann sagði að áralöng umfjöllun um málið og tíu þúsund blaðsíður séu ekki sönnun fyrir því að brotið hafi verið gegn lögum.

Ólafur er ákærður í málinu fyrir hlutdeild í umboðssvikum og markaðsmisnotkun, auk þess að vera ákærður einnig sem aðalmaður í markaðsmisnotkun. Benti verjandi hans meðal annars á að Ólafur sé ekki sérfræðingur í bankaviðskiptum og hafi ekki getað vitað um innri reglur Kaupþings, enda ekki stjórnandi þar. Hann hafi því ekki geta vitað að tilteknar lánveitingar væru ólögmætar. 

Hann sagði Ólaf ekki hafa átt að hagnast á Al-Thani-viðskiptunum og að það sé ótrúlegt að ákæruvaldið skuli halda sig við þá málsástæðu. Það hefðu enda verið slæm viðskipti fyrir Al-Thani að leggja fram sjálfskuldarábyrgð upp á 13 milljarða en sjá svo á eftir hagnaði til annarra. Sannleikurinn hafi verið sá að Al-Thani átti að fá allan hagnað og átti að bera allt tap af viðskiptunum. Hann hafi lagt fram sjálfskuldarábyrgð og nánast enginn munur sé á því og eigin fé. 

Þá sagði hann að ef fallist yrði á málatilbúnað ákæruvaldsins í þessu máli væru öll skuldsett viðskipti markaðsmisnotkun. Í raun sé um að ræða samsæriskenningu ákæruvaldsins og hugsanlega vegna þess að starfsmenn sérstaks saksóknara skildu málið ekki hlítar. 

Aðalmeðferðin heldur áfram eftir hádegið en henni lýkur í dag. Þá má búast við að fjölskipaður héraðsdómur taki sér fjórar vikur til að kveða upp dóm.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert