Frumkvæði Reykjavíkurborgar er stórt framlag til komandi kjarasamninga og mikilvægt fordæmi fyrir önnur sveitarfélög, segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Borgarráð Reykjavíkurborgar ákvað í dag að hætta við áformaðar hækkanir á gjaldskrám sem taka áttu gildi um næstu áramót.
„Næsta skref í þessu ferli er að ríkisstjórnin endurskoði áform um gjaldahækkanir í fjárlagafrumvarpi og um hækkanir ríkisstofnana á gjaldskrám sínum,“ segir Þorsteinn í leiðara nýs fréttabréfs á vef SA.
Ákvörðun borgarráðs er tekin eftir viðræður forystumanna borgarinnar og aðila vinnumarkaðarins þar sem kallað var eftir því að borgin styddi við tilraunir til þess að skapa víðtæka samstöðu samningsaðila á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga um það meginmarkmið að kveða niður verðbólgu og stuðla að stöðugu verðlagi.
„Ákvörðun borgarinnar er eðlilega tekin með þeim fyrirvara að náist ekki sá árangur sem að er stefnt muni Reykjavíkurborg taka gjaldskrár til endurskoðunar á síðari hluta árs 2014,“ skrifar Þorsteinn.