Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins reiknar með að samninganefndir SA og ASÍ hittist á næstu dögum til að ræða næstu skref í kjaraviðræðunum.
Forseti Alþýðusambands Íslands telur ekki sjálfgefið að það takist fyrir helgi vegna tillagna um breytingar sem kynntar eru í skýrslu hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar, að því er fram kemur í umfjöllun um stöðu kjaraviðræðna í Morgunblaðinu í dag.
Forystumenn ASÍ og SA hafa síðustu daga átt í óformlegum samskiptum við fulltrúa stjórnvalda um hugsanlegar aðgerðir til undirbúnings kjarasamninga til skamms tíma. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segir að málin hafi þokast í rétta átt og vonast til að myndin sé að skýrast.