Krafan um makleg málagjöld óvægin

Karl Axelsson, Sigurður Einarsson og Ólafur Ólafsson.
Karl Axelsson, Sigurður Einarsson og Ólafur Ólafsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er þannig að krafa samtímans um makleg málagjöld er óvægin,“ sagði Karl Axelsson, verjandi Magnúsar Guðmundssonar, í málflutningsræðu sinni í Al-Thani-málinu svonefnda. Hann sagði gríðarlega mikilvægt óvilhallur dómstóll skoði máli með gleraugum laga og staðreynda og kveði upp dóm á grundvelli.

Al-Thani-málið var dómtekið rétt fyrir klukkan fimm síðdegis og er gert ráð fyrir að dómur verði kveðinn upp 12. desember næstkomandi. Sjá mátti að sakborningum og gestum í dómsal var létt þegar dómþingi var slitið enda langar málflutningsræður að baki og áður skýrslutökur yfir vitnum. 

Síðastur til að halda ræðu sína var Karl - fyrir utan andsvör - sem benti á að þetta umfangsmikla hafi verið fréttamatur hruni. Þegar sé búið að fella dóma í því, bæði hvað varðar almenningsálit og í fjölmiðlum. Það sé hins vegar mikilvægt að menn horfi með sanngirni til þess hvernig staðan var haustið 2008, þegar kerfið riðaði til falls, og láta menn njót vafans. Þarna sé um að ræða menn sem voru að reyna treysta stoðir þessa banka, í þeim ólgusjó sem gekk yfir. Enginn hafi borið um það að nokkur hafi reynt að hafa áhrif á gengi bankans.

Hvað varðar skjólstæðing sinn sagði Karl að hann hefði þá sérstöku stöðu í málinu að hafa frá 1998 til falls Kaupþings gegnt stöðu forstjóra dótturfélags bankans í Lúxemborg. Þá var dótturfélagið endurskipulagt eftir hrunið undir hans stjórn og starfaði bankinn áfram undir nafninu Banque Havilland. Magnús gengdi stöðu bankastjóra hjá Havilland þar til í maí 2010, eða þegar hann var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar á Al-Thani-málinu.

Karl sagði Magnús ekki hafa haft neitt ákvörðunarvald hjá Kaupþingi banka á Íslandi og það sé í raun viðurkennt í ákæru að hann hafi ekki verið í aðstöðu til að skuldbinda bankann. Aðkoma Magnúsar að málinu helgist af því að Al-Thani kom í einkabankaþjónustu hjá bankanum í Lúxemborg. Það hafi verið gríðarlega mikilvægt fyrir bankann enda höfðu viðskiptavinir af þeirri stærðargráðu ekki sést hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum.

Þá velti hann upp þeirri spurningu hvort Magnús hefði verið ákærður ef hann hefði haft sömu aðkomu að málinu en héti Franquise og hefði verið forstjóri í banka í Mílanó. „Af hverju er umbjóðandi minn ákærður en ekki Al-Thani? Ef það er ekkert mál að ná til manns í annarri lögsögu en íslenskri hvers vegna er þá ekki gagnaðilinn í þessum meintu sýndarviðskiptum dreginn fyrir dóm?“ Hann sagði jafnframt að hundruð annarra  banka í Evrópu hefðu getað komið að málinu á nákvæmlega sama hátt.

Ennfremur minnti Karl á að Magnús hefði ekki verið starfsmaður Kaupþings á Íslandi og honum bar ekki að fylgjast með því hvort lánareglum þar væri fylgt, eða hvort sérstök áhætta væri af viðskiptum sem Kaupþing á Íslandi gerði. Hann hafði ekki milligöngu um viðskiptin við Al-Thani, en fór vissulega til Katar á fund með honum og ræddi um viðskiptin í London. Lúxemborg, Bretland og Katar. Karl sagði ljóst að íslensk lög nái ekki þangað og ákæruvaldið hafi ekki borið því við að hin meintu brot séu refsiverð þar, en um það er gerð krafa í lögum til að hægt sé að refsa honum.

Auk þess benti Karl á að afar lítið sé minnst á Magnúsl í ákærunni. Þetta er reyndar atriði sem búið var að fara yfir fyrr í meðferð málsins og komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ákæran væri nógu skýr. Og hélt saksóknari í málinu því þá fram að hann myndi skýra aðkomu Magnúsar betur við aðalmeðferðina. „Ég hlustaði sérstaklega eftir skýringum frá saksóknara um hvað Magnús gerði í fjórða lið, þar sem hann er ákærður sem aðalmaður, en ekki var minnst á hann. Og hans er ekki getið í verknaðarlýsingu kaflans.“

Þá var Karli tíðrætt um að sjeikarnir tveir, Súltan og Al-Thani, hefðu ekki verið kallaðir fyrir dóm til að gefa skýrslu. Vissulega hafi þeir gefið lögregluskýrslu í London en í þeirri skýrslutöku hafi einfaldlega ekki verið spurt allra þeirra spurninga sem þurfti að gera. Hann sagði að á meðan ekki tekst að ná „höfuðpaurunum“ fyrir dóm verði ekki byggt á óformlegri lögregluskýrslu sem tekin hafi verið í útlöndum.

Eins og áður segir var málið dómtekið síðdegis og lauk þar með aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert