Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að Alþingi eigi að hafa bæði eftirlit og aðhald með því að Landsvirkjun, sem og önnur orkufyrirtæki, verði ekki hindrun í vegi fyrir því að iðnaðaruppbyggingi haldi áfram í landinu.
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspunartíma á Alþingi í dag.
Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að Bjarni hefði í lok síðustu viku sent formönnum stjórnarandstöðuflokkanna bréf þar sem fram kom að búið væri að taka ákvörðun um boðun hluthafafundar í nokkrum af stærri félögum og fyrirtækjum í eigu ríkisins og kjósa nýjar stjórnir.
„Gert er ráð fyrir, samkvæmt bréfinu, að boðað verði til fundar í næstu viku og fundir haldnir um það bil viku síðar. Um er að ræða félögin Landsvirkjun, Rarik, Isavia og Íslandspóst, og óskar ráðherra eftir því að minnihlutinn skili tilnefningum um sína fulltrúa um fimm manna stjórnir,“ sagði Katrín.
Hún tók fram að skipunartími þeirra sem sitji í þessum stjórnum sé ekki runnin út, Venjan væri sú að slíkur skipunartími klárist og ný ríkisstjórn ráði meirihlutaskipan á næsta aðalfundi.
„Því vil ég inna hæstvirtan fjármálaráðherra að því hvað veldur þessum flýti,“ spurði Katrín og bætti við að Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hefði sent Bjarna formlegt bréf þar sem óskað er eftir formlegum skýringum.
Hún segir að þessi spurning verði ekki síst knýjandi í ljósi ummæla iðnaðarráðherra sem hann lét falla á haustfundi Landsvirkjunar í gær, þ.e. að hún væri orðin afar óþreyjufull á að verkefni á borð við álver í Helguvík verði að veruleika.
„Getur verið virðulegur forseti að ætlunin sé að fara breyta eigendastefnu Landsvirkjunar og þess vegna liggur svo á að breyta skipun stjórnar,“ spurði Katrín.
Bjarni sagði að það væri alvanalegt að þegar stjórnarskipti ættu sér stað að skipt væri um stjórnir í opinberum fyrirtækjum. Hann sagði ennfremur að sér lægi greinilega ekkert á enda um hálft ár liðið frá því ný stjórn tók við.
„Það er ekkert óeðlilegt við að kallað sé til hluthafafunda og skipt um stjórnir þótt að enn sé nokkur tími fram að aðalfundi í viðkomandi félögum,“ sagði Bjarni og bætti því við að það stæði ekki til að breyta eigendastefnu ríkisins.
Katrín segist vera ósammála þeirri túlkun Bjarna að þetta sé alvanalegt, en það sé mismunandi milli félaga og stofnana þetta sé háttað. Varðandi ofangreind fyrirtæki sé um ákveðinn skipunartíma að ræða.
„Það er ekki laust við það að maður óttist að hér sé enn eitt afturhvarfið á ferð, afturhvarfið sem er eiginlega orðið nýtt vörumerki þessarar ríkisstjórnar, afturhvarf til aukinna flokkspólitískra taka á stjórnum félaga og fyrirtækja,“ sagði Katrín og bætti við að stjórn RÚV væri dæmi um slíkt afturhvarf.
Bjarni sagði að það væri verið að starfa innan ramma laganna. Það væri aðalatriðið.
„Það er ekkert óeðlilegt og ekkert ólöglegt; það er beinlínis gert ráð fyrir því að hægt sé að kalla saman hluthafafundi í þessum félögum eins og öðrum,“ sagði Bjarni.
Menn ættu frekar að gera athugsemdir við það þegar, líkt og hefði gerst í tíð síðustu ríkisstjórnar, að gera breytingar á stjórnum rétt fyrir kosningar, þ.e. þegar menn væru að fara frá völdum í stað þessa að gagnrýna breytingar eftir að ný stjórn væri tekin við.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að þarna væri um afturhvarf áratugi aftur í tímann að ræða. „Slíkt afturhvarf upplifðum við í gær þegar iðnaðarráðherra sjálfur grefur undan stjórnendum Landsvirkjunar. Veikir samningsstöðu Landsvirkjun í erfiðum samningum við erlenda stóriðju. Sendir þau skilaboð til gagnaðila að stjórnendur Landsvirkjunar séu í þröngri stöðu, erfiðri samningsstöðu með mikinn pólitískan þrýsting á bakinu um að lækka verðin nógu mikið til að verkefnin fáist,“ sagði Helgi,
Hann hvatti Bjarna til að lýsa því yfir að markmið Landsvirkjunar sé arðsemi af orkusölusamningum.
„Vegna þess að afturhvarf það sem að háttvirtur iðnaðarráðherra er að reyna, er afturhvarf til þeirrar tíðar þegar pólitískir ráðherrar skipuðu stjórnendum Landsvirkjunar að láta í té orku til erlendrar stóriðju á útsöluprís hvað sem það kostaði til að þjóna kjördæmahagsmunum þeirra,“ sagði Helgi og bætti við að hann hélt að það hefði náðst samstaða um það á þinginu að hætta öllu slíku.
Bjarni sagði að hann og Helgi deili þeirri skoðun að Landsvirkjun verði áfram rekin með arðsemissjónarmið og langtímasjónarmið að leiðarljósi. Hins vegar beri að harma það að ekki hafi orðið að þeirri iðnaðaruppbyggingu sem menn vonuðust til þegar gengið var frá fjárfestingasamningu á Alþingi um álver í Helguvík árið 2009.
„Ég get tekið undir með iðnaðarráðherranum að það er mjög miður að ekki hafi orðið að þeirri uppbyggingu,“ sagði Bjarni.
Þá sagði Bjarni að það stæði ekki til að gera áherslu- eða stefnubreytingar í stjórn Landsvirkjunar hvað snerti kröfurnar um arðsemi.
Helgi sagðist ætla að túlka orð Bjarna til betri vegar. „Ég ætla að fagna því að hann lýsi því yfir að eigendastefnan sé í fullu gildi. Ég ætla að árétta það héðan úr ræðustólnum gagnvart viðsemjendum okkar að krafan í samningum Landsvirkjunar um sölu á orku er krafa um arðsemi. Ég ætla að kalla það hreina örvæntingu hjá hæstvirtum iðnaðarráðherra að hrauna yfir stjórnendur Landsvirkjunar á opinberum fundum,“ sagði Helgi.
Bjarni sagði að það sem helst skorti í efnahagslífinu í dag væri fjárfesting. Þetta líði bæði ríki og fyrirtæki fyrir.
„Við viljum, að sjálfsögðu, að Landsvirkjun starfi áfram eftir eigendastefnunni með arðsemissjónarmið að leiðarljósi, en við eigum líka að hafa eftirlit og aðhald með því að Landsvirkjun verði ekki, frekar en önnur orkufyrirtæki í landinu, einhverskonar hindrun í vegi fyrir því að iðnaðaruppbyggingu haldi áfram í landinu.“