Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, tók enga ákvörðun þegar kom að viðskiptum við sjeik Al-Thani, að neinu leyti. Hann telur sig á meðal ákærðra manna sökum þess að sérstakur saksóknari lýsti eftir honum í gegnum Interpol. Sú ákvörðun er til rannsóknar hjá ríkissaksónara. Þetta sagði verjandi hans í málflutningsræðu í morgun.
Málflutningur í Al-Thani-málinu hélt áfram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Næstur á dagskrá var Ólafur Eiríksson, verjandi Sigurðar Einarssonar. Hann byrjaði á að lýsa furðu yfir því að Sigurður sé yfirleitt ákærður í málinu og að málið skuli ekki hafa verið fellt niður eftir að Sigurður gaf skýrslu hjá sérstökum saksóknara.
Hann sagði Sigurð hafa vitað að það væru viðræður við Al-Thani í september 2008 en hann hafi ekki komið að þeim samningaviðræðum á nokkurn hátt eða lánveitingum sem tengdust því máli. Hann var samþykkur að lána og fjármagna kaup Al-Thani með tryggingu í hlutabréfunum og taldi þetta góð viðskipti.
Að öðru leyti hafi Sigurður ekki átt aðkomu að þessu máli og alls ekki með saknæmum hætti. Engin gögn séu um það né framburðir. Öll vitni hafi borið um að Sigurður kom ekki að málinu og sakborningar hafi í raun ekki verið spurðir um aðkomu hans.
Þá sagði Ólafur að líklega hefði Sigurður verið ákærður vegna þess að sérstakur saksóknari lét lýsa eftir honum hjá Interpol. Sérstakur saksóknari hafi þar farið verulega fram úr sér og sýnt af sér fordæmalausa framkomu gagnvart Sigurði. Í tilkynningu Interpol hafi komið fram að Sigurður var eftirlýstur flóttamaður undan réttvísinni og vegna saksóknar. Það hafi hins vegar verið rangt. Saksóknari ætlaði að taka af honum skýrslu.
Ólafur sagði að sérstakur saksóknari hefði fengið bréf frá breskum lögregluyfirvöldum þess efnis að skilyrði eftirlýsingar hjá Interpol væru ekki uppfyllt. Ekki mætti lýsa eftir mönnum vegna þess að þeir vildu fá þá til skýrslutöku. Saksókn þyrfti til. „Þetta grófa brot gagnvart Sigurði Einarssyni er í rannsókn hjá ríkissaksóknara.“
Hann eftirlýsinguna geta verið einu ástæðu þess að Sigurður sé ákærður í málinu enda séu engin skynsamleg rök til staðar.
Málflutningur heldur áfram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.