Tómasi lækni sagt upp störfum

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Af vef Bæjarins besta

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur afþakkað vinnuframlag Tómasar Halldórs Pajdak, læknis við stofnunina. Í yfirlýsingu frá Tómasi, sem birt er á vef Bæjarins besta, segir að framkvæmdastjóri stofnunarinnar, Þröstur Óskarsson, og framkvæmdastjóri lækninga við stofnunina, Þorsteinn Jóhannesson, hafi bannað sér að mæta til vinnu frá og með 12. nóvember. „Þetta gerðu þeir án nokkurs rökstuðnings og án þess að nefna nokkra ástæðu, þrátt fyrir að ég hafi lýst yfir vilja til að vinna við stofnunina út árið, eins og ég er með samning upp á, og jafnvel lengur,“ segir í yfirlýsingunni. 

„Mér þykir m.a. mjög miður að hafa óvænt og skyndilega verið sviptur aðstöðu til að fylgja eftir skjólstæðingum sem ég hafði ráðgert að fylgja eftir, sviptur því að sinna heilsugæslu í Súðavík og á Flateyri, og sviptur því að fá að kveðja samstarfsfólk mitt á stofnuninni á eðlilegan hátt,“ segir m.a. í yfirlýsingu Tómasar. 

„Til að eyða öllum vafa er hér með tilkynnt að vinnuframlag þitt er afþakkað frá og með deginum í dag 12. nóvember 2013,“ segir í uppsagnarbréfi Tómasar, að því er fram kemur á vef Bæjarins besta. Þröstur Óskarsson, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, sem skrifar undir bréfið, sagðist í samtali við BB ekki tjá sig um málefni einstakra starfsmanna. 

Í haust kröfðust þrír læknar við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða að framkvæmdastjóra lækninga við stofnunina yrði vikið frá störfum þegar í stað vegna veikinda, dómgreindarleysis og áberandi minnistruflana.

Frétt mbl.is: Segja lækninn skorta samstarfsvilja

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert