Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, vill að gerðir verði einfaldir kjarasamningar þar sem samhljómur er milli aðila um að semja til skamms tíma til að byrja með.
Þetta kom fram á fundi sem framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins og samninganefnd Alþýðusambands Íslands áttu í dag hjá ríkissáttasemjara. Um var að ræða fyrsta formlega fund aðilanna í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Þorsteinn lagði áherslu á að tíminn fram til næsta hausts verði notaður til að búa í hæginn fyrir næstu samninga sem geti verið til lengri tíma.
Það var samninganefnd ASÍ sem óskaði eftir fundinum. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, fór yfir þau samtöl sem verkalýðshreyfingin hefur átt við stjórnvöld og hvernig Alþýðusambandið sér fyrir sér framhald viðræðnanna næstu mánuði.