Fulltrúar lögreglustjórans á Suðurnesjum veittu dómaratríóinu úr leik Íslands gegn Króatíu „föðurlegt og strangt tiltal“ er dómararnir áttu leið um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í dag.
Dómaratríóið úr leik Íslands gegn Króatíu í gærkvöldi átti leið um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í dag með aðaldómarann Alberto Undiano Mallenco fremstan í flokki.
Fulltrúar lögreglunnar á Suðurnesjum „voru eðlilega, eins og flestir samlandar okkar, ekki par hrifnir af dómgæslu þeirra félaga og veittu þeim föðurlegt og strangt tiltal,“ segir í færslu lögreglunnar á Suðurnesjum á Facebook.
„Þeir tóku því vel og lofuðu bót og betrun í framtíðinni. Alberto þeim spænska þótti tiltal lögreglumannanna greinilega fyllilega réttmætt því að hann tók upp úr vasa sínum hin löggildu gulu og rauðu FIFA spjöld sem hann notaði í leiknum og gaf okkar mönnum. Skipti þá auðvitað engum togum að okkar menn gáfu þeim þremenningum fyrst gula spjaldið og svo beint í framhaldi af því rauða spjaldið og báðu þá að yfirgefa völlinn (flugvöllinn auðvitað) hið snarasta þar sem þeir ættu ekki annað skilið eftir framistöðu sína í gærkvöldi!“ segir í færslunni.