Ekkert einelti er mælanlegt í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík og er það eini skóli borgarinnar sem nær þeim árangri. Að meðaltali hafa 11% grunnskólabarna orðið fyrir einelti síðustu 12 mánuði.
Þetta er niðurstöður heildarmats grunnskólanna sem unnið er á vegum mennta- og vísindasviðs Reykjavíkurborgar.
„Við vinnum allt okkar starf í þá átt að einelti geti ekki orðið,“ segir Íris Helga Baldursdóttir, skólastjóri Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík. „Þannig að þetta er auðvitað mjög gleðileg niðurstaða og við erum virkilega stolt af þessu.“
Ytra mat á skólastarfið í grunnskólum Reykjavíkur hefur staðið yfir frá árinu 2007. Að sögn Birnu Sigurjónsdóttir, verkefnisstjóra hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, eru 6-7 skólar metnir á hverju ári og er fyrstu yfirferð því að ljúka núna.
Ýmsir þættir skólastarfsins eru skoðaðir, þar á meðal samskipti. Niðurstöðurnar um einelti byggja á könnun sem lögð er fyrir foreldra nemenda. Þeir eru m.a. spurðir hvort barnið þeirra hafi orðið fyrir einelti í skólanum sem það er í núna á síðustu 12 mánuðum, fyrir lengri tíma síðan eða aldrei.
Ekkert foreldri við Barnaskóla Hjallastefnunnar kannaðist við að þeirra barn hefði orðið fyrir einelti síðastliðna 12 mánuði, þegar könnunin var gerð þar. „Þau eru að standa sig vel í þessum efnum, ég held að það sé alveg óhætt að segja það og hrósa þegar vel er gert,“ segir Birna.
Í öllum öðrum grunnskólum borgarinnar hefur einelti mælst, frá 2% og upp úr en að meðaltali 11%. Þetta hlutfall er nokkuð áþekkt því sem fram kom í skýrslu UNICEF um stöðu barna á Íslandi 2011, en þar var niðurstaðan sú að 13% barna í 5. bekk væru lögð í einelti og 9% barna í 6. bekk.
Aðspurð hverju megi þakka eineltislaust skólastarf í Barnaskóla Hjallastefnunnar segist Íris Helga að tvennt komi til, þ.e. Hjallastefnan sjálf og svo öðru vísi vinnulag í skólanum.
„Við teljum að fyrirkomulagið hjá okkur hafi mikil áhrif og forvarnargildi. Til dæmis það að nemendahóparnir eru fámennir, 12-17 börn á hvern kennara og að kennarinn fylgir alltaf hópnum. Við förum út með nemendum í frímínútum, borðum með þeim og fylgjum þeím í íþróttir og í fataklefann.“
Íris segir að fyrir vikið hafi hver og einn kennari góða yfirsýn yfir sinn nemendahóp og geti gripið hratt inn í komi fram óæskilega hegðun. „Kennarinn fylgir sínum hóp og kynnist bæði nemenum sínum og foreldrum þeirra mjög vel.“
Rannsóknir hafa sýnt að grunnskólabörn verða einna helst fyrir einelti úti á skólalóðinni í frímínútum, á göngum skólans eða á ferð til og frá skóla. Við þessar kringumstæður eru börnin oft eftirlitslaus, gjarnan í stórum hópum og myndast hálfgert frumskógarlögmál.
Íris bendir á að í Barnaskóla Hjallastefnunnar sé t.d. aldrei unnið þannig að allir fari út á sama tíma.
„Því miður er það oft þannig að það eru aðstæður sem skapa eineltið. Það er auðveldara að týnast og erfiðara að leita til fullorðinna um leið og fjöldinn verður meiri. Ef við bjóðum ekki upp á þær aðstæður að einelti geti orðið, þá hefur það greinilega áhrif,“ segir Íris.
Auk fyrirkomulags kennslunnar telur Íris að Hjallastefnunni sjálfri megi þakka það að einelti mælist ekki í skólanum.
„Þetta sýnir okkur hvað Hjallastefnan er sterkt og gott verkfæri í skólastarfi. Við vinnum markvisst með félagsfærni og allt starfið byggist á eiginleikum einstaklingsins. Í Hjallastefnunni erum við ekki með boð og bönn heldur byggir starfið á því að ýta undir aðstæður þar sem jákvæð hegðun getur átt sér stað,“ segir Íris.
Ef það myndast einhvers konar hegðun sem okkur þykir ekki æskileg þá er auðvelt að stoppa það og bjóða barninu aðstoð við að æfa sig frekar í jákvæðri hegðun.“