„Það var farið almennt yfir gang mála hjá sérfræðingahópnum um höfuðstólslækkun verðtryggðra lána og tímaáætlun þeirrar vinnu. Staðan er mjög góð. Vinnan gengur vel og það er ljóst að allar áætlanir munu standast. Það er gaman að geta greint frá því.“
Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í Morgunblaðinu í dag í tilefni umræðna um skuldamálin á fundi ríkisstjórnarinnar í gær.
Sigmundur Davíð segir engar hindranir í vegi fyrir því að hægt verði að greina frá aðgerðunum fyrir lok mánaðarins. Spurður hvort efnt verði til sérstaks blaðamannafundar, þar sem aðgerðirnar verði skýrðar, sem og hugsanlegar afleiðingar þeirra, sagði forsætisráðherra allar líkur á því.