Ráðherrar virði mannréttindi allra

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra Eggert Jóhannesson

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flutti ávarp við setningu kirkjuþings í gær. Þar gerði hún umræðu um gildi og hlutverk kristinnar trúar í samfélaginu á liðnum misserum að umtalsefni sínu. Stjórn Siðmenntar hefur sent frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að félagið geri kröfu um að þingmenn og ráðherrar virði mannréttindi allra þegna landsins en geri ekki upp á milli lífsskoðana og hygli einni ákveðinni trú jafnvel þó að þeir hafi kristna lífsskoðun sjálfir.

Rætt um að jólasálmar geti skaðað íslenska æsku

„Það er ekkert nema eðlilegt að við sem samfélag skiptumst á skoðunum um slík grunngildi, en sum sveitarfélög og sumir stjórnmálamenn hafa talið það forgangsverkefni á þeim tímum sem við nú lifum að finna leiðir til að færa trúna, boðskap hennar og áherslur eins langt frá æsku þessa lands og mögulegt er,“ sagði Hanna Birna. „Á tímum  þar sem eðlilega er mikið rætt um víðsýni, umburðarlyndi og fjölbreytni er þannig markvisst unnið að því að halda öllu sem skilgreina má trúarlegt frá skólabörnum.“

„Ég er ekki sammála þeirri stefnu og það segi ég ekki bara sem stjórnmálamaður, heldur miklu frekar sem móðir tveggja barna á grunnskólaaldri. Á sama tíma og börnin okkar kynnast flestu ef ekki öllu sem gerist í samfélaginu; heimsækja reglulega á vegum skólans fyritæki, stofnanir og félagasamtök, fá í heimsókn boðbera ólíkra sjónarmiða í skólana sína, að því ógleymdu að dvelja flest óáreitt langdvölum í netheimum, er Gídeonfélagið hins vegar sett á bannlista samhliða því sem af alvöru er rætt um að heimsóknir barna í kirkjur landsins, einstaka Faðir vor eða jólasálmar geti skaðað æsku þessa lands,“ sagði Hanna Birna.

„Á ögurstundum í lífi þessarar þjóðar getur það varla verið forgangsmál að forða börnunum okkar frá boðskap um kristni og kærleika, enda hlýtur skólastarf nútímans að eiga að einkennast af fjölbreytni, vali og trú á því að einstaklingarnir sjálfir fái með fræðslu og upplýsingu tækifæri til að móta sínar lífsskoðarnir, trú og sannfæringu.“

Gera athugasemdir við ávarp Hönnu Birnu

Stjórn Siðmenntar hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna ávarps Hönnu Birnu. Þar segir að í ræðu hennar kenni ýmissa grasa sem stjórnin vilji bregðast við.

„Ráðherra gerir að umtalsefni reglur Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðar og Kópavogsbæjar um samskipti skóla við trú- og lífsskoðunarfélög. Ráðherra tjáir þá skoðun sína að hún telji réttlátt að trúboð sé stundað í opinberum skólum með dreifingu trúarrita, heimsóknum trúfélaga í skóla og kirkjuheimsóknum skólabarna. Að auki telur ráðherra í lagi að skólabörn þylji faðir vorið. Reyndar fellur ráðherrann í þá gryfju að segja þetta vera í lagi þar sem enginn skaðist af því en einnig að það hljóti að vera mótvægi við skaða barna vegna óhefts aðgangs barna að netinu, segir í tilkynnningu Siðmenntar.

„Fyrst af öllu þá eru skólar sem reknir eru fyrir opinbert fé ekki vettvangur trúfélaga. Skólar eiga að virða lífsskoðun allra og vera óháðir þegar kemur að slíkum málum. Foreldrar eiga að geta treyst því að skólarnir séu ekki leikvöllur trúfélaga né heldur að þeir þurfi stöðugt að gefa upp lífsskoðun sína. Hætta er á að slíkt ástand leiði af sér einelti og vanlíðan barna. Trúar- og lífsskoðun er einkamál hvers og eins,“ segir í tilkynningunni.

„Þar sem ráðherra notar Gídeonfélagið sem dæmi um saklausa iðju þá er það að dreifa trúarritum skýrasta dæmið um trúboð sem ekki á heima innan veggja opinberra stofnana. Að nota rök um skaða barna vegna netnotkunar til þess að réttlæta trúboð í skólum er í versta falli smjörklípa. Siðmennt vill í þessu sambandi benda á að það er á ábyrgð foreldra að sjá um trúaruppeldi barna sinna en ekki hlutverk skólakerfisins.“

Kirkjur eru víða og sinna öflugu barnastarfi á sínum forsendum. Þangað eiga þeir foreldrar að leita en ekki gera kröfu um að aðrir sjái um það fyrir þá. Siðmennt gerir kröfu um að þingmenn og ráðherrar virði mannréttindi allra þegna landsins en geri ekki upp á milli lífsskoðana og hygli einni ákveðinni trú jafnvel þó að þeir hafi kristna lífsskoðun sjálfir,“ segir í tilkynningunni.

Ávarp Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, á kirkjuþingi í gær.

Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar.
Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert