Ökumaður jeppa missti stjórn á bifreiðinni í hálku austan við Jökulsá á Sólheimasandi nú síðdegis með þeim afleiðingum að hún valt. Karl og kona voru í bifreiðinni og að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli sluppu þau ómeidd. Bifreiðin er hins vegar ónýt.
Aðspurð segir lögreglan fólkið hafi verið erlendir ferðamenn á bílaleigubíl. Atvikið átti sér stað um kl. 16 í dag. Bifreiðin fór heila veltu að sögn lögreglu. Ljóst sé að ökumaðurinn hafi ekki ekið bifreiðinni miðað við aðstæður.
Lögreglan hvetur ökumenn til að aka varlega sökum slæmrar færðar, en víða er hálka og snjóþekja á vegum á Suðurlandi.