Hofsjökulsþjóðgarður verði stofnaður

Á Sprengisandi; Hofsjökull í fjarska.
Á Sprengisandi; Hofsjökull í fjarska. www.mats.is

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að umhverfisráðherra verði falið að vinna að stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa sem hafi innan sinna marka Hofsjökul og aðliggjandi svæði. Hliðstæð tillaga hefur tvisvar áður verið flutt og var Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þáverandi þingmaður VG, fyrsti flutningsmaður í bæði skiptin.

„Með tilkomu Hofsjökulsþjóðgarðs væri tekið mikilvægt skref í náttúruvernd á Íslandi. Hofsjökli og umhverfi hans væri lyft á þann stall sem þau verðskulda og aðdráttarafl og gildi óbyggðanna yrði tryggt. Fyrir þjóð sem vill vera framarlega í umhverfismálum samhliða því að byggja upp sjálfbæra ferðaþjónustu til framtíðar er mikið í húfi að vernda náttúru landsins, ekki síst jarðsögulegar minjar, víðerni og jökla hálendisins,“ segir meðal annars í greinargerð með tillögunni.

Þá segir að ekki sé eftir neinu að bíða í þeim efnum enda senn liðinn hálfur annar áratugur frá því að hugmyndin um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs kom fyrst fram. Gert er ráð fyrir að ráðherra kynni Alþingi stöðu málsins fyrir lok vorþings á næsta ári og að stefnt verði að formlegri stofnun þjóðgarðsins árið 2015.

Þingsályktunartillagan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert