„Mjög mikið áhyggjumál“

Sjúkraflutningamenn að störfum.
Sjúkraflutningamenn að störfum. mbl.is/Sigurgeir

Sjúkraflutningamenn hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og stjórn Lögreglufélags Suðurlands óttast að öryggi íbúa verði stefnt í voða fækki sjúkraflutningamönnum á vakt úr fjórum í tvo, 11 tíma á sólarhring, þann 1. janúar nk. „Þetta getur orðið hræðilegt,“ segir trúnaðarmaður sjúkraflutningamanna í samtali við mbl.is.

Lögreglufélagið sendi frá sér ályktun í dag, þar sem segir m.a. að félagið harmi fregnir af boðuðum niðurskurði heilbrigðisstofnunarinnar, hvað varðar fyrirkomulag sjúkraflutninga í Árnessýslu. „Það er ekkert launungarmál að niðurskurður af þessum toga getur kostað mannslíf,“ segir í ályktuninni.

Endurskoðar áform um  fækkun sjúkrabíla á landsbyggðinni

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra upplýsti fyrr í þessum mánuði að hann hefði ákveðið að endurskoða áform um  fækkun sjúkrabíla á landsbyggðinni, sem taka átti gildi í byrjun næsta árs samkvæmt samningi við Rauða kross Íslands (RKÍ). Upphaflega stóð til að fækka bílum úr 77 í 68 en Kristján greindi frá því á Alþingi að sú ákvörðun hefði verið endurskoðuð. 

Hermann Marinó Maggýjarson, trúnaðarmaður sjúkraflutningsmanna hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi, segir í samtali við mbl.is, að umrædd ákvörðun varði aðeins ökutæki en ekki mannskapinn. „Það þarf víst menn í að keyra þessa bíla og sinna sjúklingunum,“ segir hann.

Aðspurður segir Hermann að staðan sé óbreytt varðandi sjúkraflutningamenn í Árnessýslu, þ.e. að það stendur til að fækka þeim úr fjórum í tvo, þ.e. í 11 klukkustundir á næturvöktum, og mun sú breyting taka gildi 1. janúar nk.

„Við erum að fara ansi langt aftur í viðbragði í bráðaþjónustu ef þetta gengur eftir. Þetta er mjög mikið áhyggjumál og þetta getur orðið hræðilegt,“ segir Hermann.

1.900 sjúkraflutningar í 8.000 ferkílómetra sýslu

Hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands starfa nú 16 sjúkraflutningamenn sem sinna vöktum. „Þar á meðal fjórir á hverri vakt, sem þýðir tveir bílar mannaðir alltaf. Þá má ekki gleyma því að oft þurfum við að manna þriðja og fjórða bíl,“ segir Hermann.

Hann bætir því við að vegalengdir í sýslunni séu gríðarlegar. „Þetta er átta þúsund ferkílómetra sýsla; þú keyrir það ekki á fimm mínútum,“ segir hann.

Aðspurður segist hann vilja halda núverandi fyrirkomulagi, þ.e. að það séu tveir bílar mannaðir allan sólarhringinn eins og verið hefur. „Þetta er lágmarksviðbragð fyrir þessa sýslu. Þarna eru um það bil 1.900 sjúkraflutningar á ári.“

Aðspurður segir Hermann að stjórn sjúkrahússins hafi komið þessu áhyggjum á framfæri við velferðarráðherra, en unnið sé að því að leita leiða til að fá inn það viðbótarfjármagn svo ekki þurfi að skerða þjónustuna.  Engin viðbrögð hafa enn borist frá ráðuneytinu að sögn Hermanns. 

„Fyrst og fremst verðum við að tryggja öryggi fólks í öllum byggðum landsins. Það gerum við best með því að skoða aðstæður með staðkunnugum og skipuleggja fyrirkomulag sjúkraflutninga með hliðsjón af skipulagi heilbrigðisþjónustunnar á hverjum stað í náinni samvinnu við forsvarsmenn í hverju heilbrigðisumdæmi“ sagði Kristján Þór þegar ráðuneytið greindi frá að ákvörðun um endurskipulagningu sjúkraflutninga yrði endurskoðuð.

Hætt verði við boðaðar breytingar

Eftirfarandi ályktun sendi stjórn Lögreglufélags Suðurlands frá sér í dag:

„Öryggi borgaranna stefnt í voða?

Stjórn Lögreglufélags Suðurlands harmar fregnir af boðuðum niðurskurði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, hvað varðar fyrirkomulag sjúkraflutninga í Árnessýslu. Fækkun sjúkraflutningsmanna á vakt hverju sinni úr fjórum í tvo, 11 tíma sólarhringsins er hættuspil. Svæðið sem sjúkraflutningsmönnum  stofnunarinnar er ætlað að sinna er stórt og verkefnin oft á tíðum tímafrek. Útkallstími í neyðartilvikum kann við boðaðar breytingar að lengjast, jafnvel gæti það farið svo að engan sjúkrabíl væri að fá. Það er ekkert launungarmál að niðurskurður af þessum toga getur kostað mannslíf!

Stjórn Lögreglufélags Suðurlands hvetur til þess að hætt verði við boðaðar breytingar á mönnun sjúkrabifreiða Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í Árnessýslu.“

„Það þarf víst menn í að keyra þessa bíla og …
„Það þarf víst menn í að keyra þessa bíla og sinna sjúklingunum,“ segir trúnaðarmaður sjúkraflutningamanna hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert