Reynt að semja um makrílinn

Simon Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands.
Simon Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands.

Viðræður hóf­ust í morg­un um mögu­lega lausn á mak­ríl­deil­unni í Cork-sýslu á Írlandi en þær munu standa fram eft­ir vik­unni. Fund­inn sitja fyr­ir Íslands hönd Sig­ur­geir Þor­geirs­son, aðal­samn­ingamaður, og Jó­hann Guðmunds­son, skrif­stofu­stjóri í sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðuneyt­inu.

Haft var eft­ir Sig­urði Inga Jó­hanns­syni, sjáv­ar­út­vegs­ráðherra, í Morg­un­blaðinu um helg­ina eft­ir fund hans með Mariu Dam­anaki, sjáv­ar­út­vegs­stjóra Evr­ópu­sam­bands­ins, að þau hefðu verið sam­mála um að tæki­færi væri fyr­ir hendi til þess að ná samn­ing­um um mak­ríl­inn. Þá sagði hann þau einnig sam­mála um að ekki mætti bú­ast við of miklu af mak­ríl­fund­in­um á Írlandi. Meiri vinna væri eft­ir.

Haft er eft­ir Simon Co­veney, sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Írlands, á írska frétta­vefn­um Afloat.ie í dag að þó hann hafi aldrei sætt sig við „óá­byrga hegðun“ Íslend­inga og Fær­ey­inga þá vilji hann eft­ir sem áður ná sam­komu­lagi í deil­unni í þess­ari viku. Þó ekki sama hvað það kosti. Íslend­ing­ar og Fær­ey­ing­ar eigi rétt á sann­gjörn­um hlut af mak­ríl­kvót­an­um en mögu­legt sam­komu­lag verði einnig að tryggja hags­muni ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins.

Co­veney seg­ist bú­ast við erfiðum viðræðum en fund­inn sitja full­trú­ar Íslands, Nor­egs, Evr­ópu­sam­bands­ins og Fær­eyja en Rúss­ar og Græn­lend­ing­ar eiga þar áheyrn­ar­full­trúa.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert