„Ég legg því til að við þingmenn hugsum okkar gang á vinnustaðnum og byrjum á pappírsflóðinu hérna í húsinu. Ég vil benda á að ruslaföturnar í salnum eru fyrir almennt sorp en pappír til endurvinnslu fer í þar til gerða kassa hér frammi. Björgum verðmætum og verum ekki í rusli.“
Þetta sagði Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, í umræðum á Alþingi í dag þar sem hún gerði flokkun sorps að umfjöllunarefni sínu og hvatti um leið samþingmenn sína til þess að vera duglegri við að flokka sorp í þinghúsinu. Hún sagði að gera þyrfti betur í sorpflokkun í landinu þó margir stæðu sig vel í þeim efnum. En þar þyrfti almenna hugarfarsbreytingu. Mörg minni sveitarfélög víða um landið hefðu til að mynda staðið sig með prýði í flokkun sorps. Tók hún dæmi af Vopnafirði þar sem hún þekkti best til en þar hefði flokkun sorps hafist um áramótin 2010/2011.
„Farin var sú leið að hvert heimili flokkar sitt sorp, pappír er til dæmis flokkaður í minnst þrjá flokka o.s.frv. Síðan fer hver með sitt góss á flokkunarstöð en heimilissorp sér sveitarfélagið um að sækja. Það er skemmst frá því að segja að heimilissorp minnkaði um 60% og flokkunarstöðin er orðin einn af samkomustöðum íbúa þar sem ræða má málin. Þetta er hægt eins og sjá má af fjölmörgum dæmum um landið og hver einstaklingur verður að taka ábyrgð á sínu umhverfi og leggja sitt af mörkum.“