Ísland í 1. sæti af 72 ríkjum

Með vísitölunni er lagt mat á frammistöðu ríkja varðandi stöðu …
Með vísitölunni er lagt mat á frammistöðu ríkja varðandi stöðu kvenna og kynjasamþættingu í stefnumótun í umhverfismálum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ísland er í fyrsta sæti af 72 ríkjum samkvæmt svokallaðri umhverfis- og kynjavísitölu (Environment and Gender Index) sem kynnt var á 19. aðildaríkjaþingi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Varsjá í dag. Með vísitölunni er lagt mat á frammistöðu ríkja varðandi stöðu kvenna og kynjasamþættingu í stefnumótun í umhverfismálum. Holland er í öðru sæti listans og Noregur í því þriðja en Kongó í því neðsta.

Þetta kemur fram í frétt frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

 Þetta er í fyrsta sinn sem listinn er gefinn út en að baki honum er Alþjóðanáttúruverndarsambandið (IUCN - International Union for Conservation of Nature and Natural Resources). 

 Samkvæmt listanum skorar Ísland hæst í flestum flokkum sem vísitalan nær til. Þó sé frammistaða landsins slakari þegar kemur að fjölda kvenna í samninganefndum um umhverfismál, fjölda kvenna í stjórnendastöðum sem og í æðstu stöðum hins opinbera. Þá þurfi ríkið að bæta sig í upplýsingagjöf til Samningsins um líffræðilega fjölbreytni (CBD) og Samningsins um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW).

 Almennt sýna niðurstöður IUCN að töluvert skorti á að upplýsingum um hlutverk og stöðu kvenna í umhverfismálum sé haldið til haga. Að mati sambandsins vantar þar með verulega upp á þekkingu á því hvernig mannkynið er háð náttúruauðlindum því upplýsingar um hvernig þær snerta konur eru varla til.

 Þá hafa fæst ríki innleitt áætlanir um hvernig þau hyggjast framfylgja alþjóðlegum skuldbindingum á sviði samþættingar jafnréttis- og umhverfismála. Á hinn bóginn kemur fram að hlutfall kvenna í alþjóðlegum samninganefndum um loftslagsmál, líffræðilega fjölbreytni og eyðimerkurmyndun hefur aldrei verið hærra, eða 36%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert