Vandaður undirbúningur eykur líkur á velheppnaðri sameiningu ríkisstofnana. Einn og sér er hann hins vegar ekki nægjanlegur og er í mörg horn að líta í þeim efnum. Mannlegi þátturinn skiptir þar ekki síst mjög miklu máli og að tryggt sé að starfsmenn séu þátttakendur í ferlinu og tekið sé eðlilegt tillit til sjónarmiða þeirra. Þeir fái ennfremur þá aðstoð sem þeir þurfi á að halda við að takast á við þær breytingar sem sameiningin hefur í för með sér. Þá er eftirleikurinn ekki síður mikilvægur þegar sameiningin er um garð gengin og ný stofnun hefur tekið til starfa.
Þetta er meðal þess sem fram kom í erindum sem Kristín Kalmansdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Ríkisendurskoðunar, Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins, og Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, flutti á fundi í morgun á Grand Hóteli í Reykjavík þar sem fjallað var um sameiningu og endurskipulagningu ríkisstofnana.
Áskorunin hefst fyrir alvöru eftir sameiningu
Kristín gerði meðal annars grein fyrir skýrslum Ríkisendurskoðunar um sameiningar ríkisstofnana á undanförnum árum og hvaða lærdóm mætti draga af þeim að mati stofnunarinnar. Þegar stofnanir hefðu verið sameinaðar hæfist áskorunin sem fylgdi sameiningunni fyrir alvöru en það hvernig til tækist í þeim efnum skipti sköpum. Í því fælist að skapa þyrfti öflugan og heildstæðan vinnustaðabrag, vinna að settum markmiðum sem heild og ákveða heildstætt stjórnskipulag og samræmt verklag.
Sameining heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingaráðuneytisins í eitt ráðuneyti, velferðarráðuneytið, var viðfangsefni erindis Önnu Lilju. Þar hefði mikil áhersla verið lögð á að jafnræðis væri gætt og að ekki væri um yfirtöku annars ráðuneytisins á hinu að ræða. Starfshópar með þátttöku starfsmanna hefðu til að mynda endurspeglað þetta þar sem lögð hefði verið áhersla á að í hverjum hópi væru fulltrúar frá hvoru ráðuneyti.
Sömuleiðis hefði áhersla verið lögð á upplýsingamiðlun til starfsmanna, tillit tekið til óska þeirra um verkefni, aðstöðu og annað að lokinn sameiningu eins og kostur hafi verið og þátttöku starfsmanna í innri stefnumótunarvinnu í framhaldi af sameiningunni. Ennfremur að mótun nýs ráðuneytis væri á ábyrgð allra starfsmanna.
Markvissari stjórnun án málamiðlana
Skúli Eggert talaði á hliðstæðum nótum um sameiningu embætta ríkisskattstjóra og níu skattstjóra víða um land í eitt. Þar hefði Ríkisskattstjóri tekið yfir störf annarra stofnana ólíkt því sem gerðist í tilfelli velferðarráðuneytisins en með sameiningunni hefði stjórnun orðið markviss og án málamiðlana. Starfsmenn hefðu verið með í ráðum frá byrjun og áhersla verið lögð á reglulega upplýsingamiðlun til þeirra.
Fundurinn var á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Ríkisendurskoðunar, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Félags stjórnsýslufræðinga og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála.