Telur skammirnar hafa beinst að Bjarna

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar

„Reiðilestur Sigmundar Davíðs var því ætlaður öðrum en Seðlabankanum. Í gamla daga helltu stjórnarherrar Sovétríkjanna sér yfir Albaníu, þegar þeir þorðu ekki að skamma Kínverja. Sigmundur fer nú sömu krókaleið að því að skamma fjármálaráðherrann fyrir að vilja ekki láta ríkissjóð borga skuldaleiðréttingarnar – þvert á það sem hann sjálfur lofaði þjóðinni.“

Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á vefsíðu sinni í dag. Þar gerir hann að umtalsefni sínu gagnrýni sem kom frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, í fjölmiðlum í gær á þau ummæli fulltrúa Seðlabanka Íslands um að ekki væri löglegt að fjármagna skuldaleiðréttingar fyrir heimilin í landinu í gegnum útgáfu skuldabréfs af hálfu bankans, slíkt jafngilti peningaprentun og stefndi meðal annars lánshæfi landsins í hættu.

Eins og áður segir telur Árni Páll að þeirri gagnrýni Sigmundar hafi í raun verið beint að Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, sem hafi tekið undir með Seðlabankanum í umræðum á Alþingi í gær þegar hann hafi látið þau orð falla að hann vildi ekki grípa til aðgerða sem væru til þess fallnar að auka skuldir ríkisins eða stofna lánshæfi þess í hættu. Til þess hafi Sigmundur notað gamalgróna aðferð.

Grein Árna Páls Árnasonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert