Vilja að makríllinn fari á uppboð

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn úr röðum stjórnarandstæðinga kölluðu eftir því á Alþingi í dag að makrílveiðar yrðu háðar kvóta en að sá kvóti gengi ekki sjálfkrafa til þeirra sem hefðu stundað fiskveiðar til þessa heldur yrði hann boðinn upp. Þannig sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, að í varanlegri úthlutun makrílkvóta væru fólgin gríðarleg atvinnutækifæri sem eðlilegt væri að borgarnir hefðu jafnan aðgang að.

„Ég ætla út af fyrir sig ekki að útiloka að þeir aðilar sem hafa aflað veiðireynslu ættu rétt á því að fá einhvern hluta af þessum heimildum til að mæta tilkostnaði sem þeir kunna að hafa orðið fyrir við að afla veiðireynslunnar. En að langstærstum hluta er hægt að bjóða út á markaði kvóta á makríl og afla þannig gríðarlegra tekna fyrir ríkissjóð og tryggja jafnræði fólks til að stunda sjó,“ sagði hann ennfremur.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, tók í sama streng og sagði rétt að skoða möguleika á því að leigja makrílkvóta eða bjóða hann upp. Hún sagði að sér hefði brugðið þegar sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafi lýst áformum um að kvótasetja makríl og færa kvótann þeim útgerðarmönnum sem fyrir væru með framseljanlegum hætti.

Var ákveðið að fara veiðigjaldaleiðina

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, minnti hins vegar á að lög væru í landinu sem gerðu ráð fyrir því að tegundir skyldu kvótasettar og deilt út miðað við aflareglu ef um staðbundinn stofn væri að ræða sem hefði verið veiddur í þrjú ár við landið. Ef um flökkustofn eða deilistofn væri að ræða skyldu tekin þrjú bestu árin á síðustu sex árum. Makríllin hefði verið veiddur við landið síðan árið 2007 og því væru skilyrði laganna ljóslega uppfyllt.

Hann benti á að síðasta ríkisstjórn hefði ekki sett varanlegan kvóta á makrílinn og sett hann á uppboð en gagnrýndi nú nýja ríkisstjórn fyrir að ætla ekki að gera það. Það væri þannig holur hljómur í gagnrýni til að mynda Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns VG og fyrrverandi ráðherra sjávarútvegsmála. „Við tökum ekki bæði veiðigjöld og síðan setjum aflaheimildir á uppboðsmarkað. Það var ákveðið að fara hér veiðigjaldaleiðina af síðustu ríkisstjórn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert